Barnaheill veita neyðaraðstoð til barna í Tyrklandi og Sýrlandi vegna náttúruhamfara

Í nótt, mánudaginn 6. febrúar um klukkan 4 að staðartíma, varð jarðskjálfti af stærðinni 7,8 meðfram landamærum Tyrklands og Sýrlands. Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa hafið neyðarsöfnun fyrir börn á hamfarasvæðum.

Jarðskjálftinn fannst í fjölmörgum héruðum í suðurhluta Tyrklands og norðvesturhluta Sýrlands, auk Líbanon, Ísrael og öðrum grannlöndum. Tilkynnt var um mikla eyðileggingu í suðurhluta Tyrklands og norðvesturhluta Sýrlands. Eftirskjálftar hafa einnig verið fjölmargir og öflugir. Þetta er einn sterkasti jarðskjálfti sem hefur orðið á svæðinu í 100 ár.

Þúsundir hafa týnt lífi og fjölmörg slösuð

Alþjóðasamtök Barnaheilla - Save the Children eru stærstu alþjóðlegu frjálsu félagasamtökin sem starfa í þágu barna í heiminum. Samtökin veita neyðaraðstoð til barna og fjölskyldna þeirra í kjölfar náttúruhamfara eða átaka. Barnaheill – Save the Children leggja ávallt áherslu á að vera meðal þeirra fyrstu til að bregðast við hamförum og aðstoða börn og fjölskyldur þeirra á erfiðum tímum.

Barnaheill – Save the Children vinna nú hörðum höndum að því að bregðast við þeirri neyð sem blasir við í kjölfar skjálftanna. Þúsundir barna í Tyrklandi og Sýrlandi eru slösuð, hafa misst fjölskyldur sínar og hafa þurft að yfirgefa heimili sín um miðja nótt en mikið næturfrost er nú á svæðinu og því brýnt að börnin fái skjól sem fyrst. Um 2.800 byggingar hafa eyðilagst í Tyrklandi. Þá er einnig fjöldi barna fastur í rústum. Það er því gríðarlega mikilvægt að alþjóðasamfélagið bregðist skjótt við og sendi björgunarsveitir, vistir, lyf og fólk til að bjarga þeim sem bjargað verður. Hver klukkustund skiptir máli!

Börn í Sýrland hafa búið við stríðsástand svo árum skiptir og nú bætast við þessar hryllilegu náttúruhamfarir. Stríðsátök og náttúruhamfarir bitna verst á börnum. Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa nú fyrir söfnun vegna neyðaraðstoðar til barna á hamfarasvæðum.

Hér getur þú lagt börnum lið með frjálsum framlögum Neyðarsöfnun Barnaheilla (styrkja.is)