Barnaheill harma viðbrögð við ofbeldisumræðu

Barnaheill – Save the Children á Íslandi harma viðbrögð gegn samtökunum og starfsmanni þeirra eftir birtingu fréttar á Vísi í dag undir fyrirsögninni Gunnar Nelson er stórhættuleg fyrirmynd.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi harma viðbrögð gegn samtökunum og starfsmanni þeirra eftir birtingu fréttar á Vísi í dag undir fyrirsögninni Gunnar Nelson er stórhættuleg fyrirmynd. 

 

Fréttin kemur frá fréttamanni á Bylgjunni og Vísi, sem hafði samband við Barnaheill í morgun til að leita álits á áhrifum bardaga af þessari tegund á börn eftir leiðara í Fréttablaðinu og umræðu á netinu.

 

Fyrirsögn fréttarinnar er ekki komin frá samtökunum, eða starfsmanni þeirra. Orðfærið “stórhættuleg fyrirmynd” var liður í spurningu fréttamannsins og slegið upp eins og það kæmi frá samtökunum. Starfsmaður samtakanna vildi fyrst og fremst leggja áherslu á að bardagar væru ekki til eftirbreytni fyrir börn.

 

Samtökin vilja taka það fram að ummælin snerust ekki gegn Gunnari Nelson sem persónu, heldur birtingarmynd þess ofbeldis sem kemur fram í bardögum.

 

“Við viljum vekja athygli á því að líkamlegt ofbeldi í sjónvarpi geti haft slæm áhrif á börn,” segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. “Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur meðal annars áhyggjur af tvíþættum áhrifum ofbeldisfulls efnis í sjónmiðlum. Í fyrsta lagi kunni börn að gerast ónæm fyrir alvarleika ofbeldis og í öðru lagi kunni þau að leika eftir einstaka ofbeldishegðun.”

 

Barnaheill hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi og vilja vekja athygli á því að börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi - líka vernd gegn ofbeldisefni. Samtökin hafa fengið ábendingar um áflog barna á skólalóðum þar sem svipuðum aðferðum er beitt og í umræddum bardaga. Samtökin vilja því leggja áherslu á mikilvægi þess að foreldrar og kennarar ræði við börn sín um að aldrei megi beita ofbeldi og hverjar afleiðingar ofbeldis geta verið.