Barnaheill – Save the Children á Íslandi fá eina milljón króna úr Samfélagssjóði Landsbankans

Landsbankinn veitti nýverið í fyrsta sinn 15 milljónir króna í samfélagsstyrki úr nýjum Samfélagssjóði bankans. Veittir voru þrjátíu og fimm styrkir, fimm styrkir að upphæð 1 milljón króna hver, tíu styrkir að upphæð 500 þúsund krónur og tuttugu styrkir að upphæð 250 þúsund krónur.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hlutu eina milljón króna í verkefni um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi á netinu. Samtökin hafa frá árinu 2001 tekið þátt í slíku alþjóðlegu verkefni sem hefur verið styrkt af Safer Internet samstarfsáætlun Evrópusambandsins. Hluti verkefnisins er rekstur ábendingalínu, en á vef samtakanna, barnaheill.is, er hnappur þar sem hægt er að senda inn nafnlausar ábendingar um efni á netinu þar sem börn eru beitt kynferðisofbeldi eða sýnd á kynferðislegan hátt. 

Barnaheill - Save the Children á Íslandi eru einnig aðili að SAFT-verkefninu, en SAFT stendur fyrir Samfélag, fjölskylda og tækni og er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Samtökin eru í samstarfi við ofangreinda aðila að koma á fót, kynna og dreifa nýjum ábendingarhnappi, sem hægt er að setja á vefsíður. Með útbreiðslu á slíkum hnappi verður auðveldara að uppræta ólöglegt efni á netinu þar sem börn eru beitt ofbeldi. 

Jafnframt vinna samtökin að því, í samvinnu við Evrópuskrifstofu Barnaheilla – Save the Children, að koma á fót sterku alþjóðlegu samstarfi lögregluyfirvalda til að finna þolendur með markvissum hætti.
Alls bárust ríflega 500 umsóknir um samfélagsstyrki Landsbankans. Þeim er ætlað að styðja við samfélagsmál af ýmsum toga, s.s. verkefni mannúðarsamtaka og líknarfélaga, verkefni á sviði menntamála, rannsókna og vísinda, verkefni á sviði menningar og lista, forvarnar- og æskulýðsstarf og sértæka útgáfustarfsemi. Fyrirhugað er að úthluta samfélagsstyrkjum árlega.

Styrkir til samfélagsmála byggja á stefnu bankans um samfélagslega ábyrgð hans og skyldur. Dómnefnd um úthlutun samfélagsstyrkja að þessu sinni var skipuð þeim Halldóri Guðmundssyni, rithöfundi og bókmenntafræðingi, Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, dósent við Háskóla Íslands, Bergi Ebba Benediktssyni, lögfræðingi og tónlistamanni, Kristjáni Kristjánssyni, fulltrúa Landsbankans og Guðrúnu Agnarsdóttur lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar.