Barnahús hlaut viðurkenningu Barnaheilla 2002

Barnahús hlaut í dag viðurkenningu Barnaheilla, Save the Children á Íslandi, fyrir sérstakt framlag í þágu barna og réttinda þeirra.

Barnahús hlaut í dag viðurkenningu Barnaheilla, Save the Children á Íslandi, fyrir sérstakt framlag í þágu barna og réttinda þeirra.

Stjórn samtakanna hefur ákveðið að veita slíka viðurkenningu árlega og valið til þess afmælisdag Barnasáttmálans 20. nóvember. Á þeim degi árið 1989 var sáttmálinn samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Tilkoma Barnahúss er að mati Barnaheilla eitt merkasta framfaraspor sem stigið hefur verið á Íslandi til að uppfylla skyldur gagnvart börnum sem grunur leikur á að beitt hafi verið kynferðislegu ofbeldi. Barnahús, sem er rekið af Barnaverndarstofu, hóf starfsemi sína í nóvember 1998 og með tilkomu þess varð sú meginbreyting á við meðferð kynferðisbrota gegn börnum, að í stað þess að börnin þyrftu að aðlaga sig ólíkum stofnunum samfélagsins starfa þessar stofnanir nú saman undir einu þaki við að koma til móts við þarfir barnanna.