Barnshafandi konur gætu þurft að fæða í neyðarskýlum

JapanBarnaheill – Save the Children á Íslandi vara við því að barnshafandi konur gætu þurft að fæða í fjöldahjálparstöðvum sem komið var upp í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju í Japan. Ástæðan er síaukinn skortur á eldsneyti.

Japan
Börn mynda röð til að fá mat og vatn í fjöldahjálparstöð í Sendai í Japan. Ljósmynd: Jensen Walker/Getty.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi vara við því að barnshafandi konur gætu þurft að fæða í fjöldahjálparstöðvum sem komið var upp í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju í Japan. Ástæðan er síaukinn skortur á eldsneyti.

Fulltrúar samtakanna, sem berjast fyrir mannréttindum barna, hittu Nao Saito í Shichigo-barnaskólanum sem breytt hefur verið í fjöldahjálparstöð. Nao á að eiga barn sitt í næstu viku. Vegna skorts á eldsneyti, er hún hrædd um að ná ekki í tíma á sjúkrahúsið í borginni Sendai. „Nær hálf milljón manna er á vergangi eftir flóðbylgjuna og margir þeirra búa í yfirfullum fjöldahjálparstöðvum á nær 600 kílómetra strandlengju Japans. Það er því miður hætt við að konur, sem eru langt gengnar með barn, neyðist til að fæða í þessum stöðvum,“ segir Stephen McDonald, sem leiðir neyðaraðstoð Barnaheilla – Save the Children í Japan.

Víðsvegar um borgina og annars staðar á flóðasvæðinu hafa myndast langar biðraðir við bensínstöðvar þar sem fólk bíður í allt að fimm tíma til að fá sinn skammt af eldsneyti. Stephen McDonald segir að í ljósi aðstæðna sé eðlilegt að fjöldi barnshafandi kvenna hafi miklar áhyggjur af því hvar þær geti fætt börn sín. „Það er afar mikilvægt að japönsk yfirvöld fylgist með heilsu og velferð þessara kvenna og bjóði þeim tilhlýðilega þjónustu sem mætir þörfum þeirra.“
 
Á þeim svæðum í Japan, sem urðu fyrir flóðbylgju, hefur Barnaheill – Save the Children komið upp barnvænum svæðum til að gera börnum kleift að leika sér við önnur börn á svipuðum aldri á öruggu svæði. Um leið fá foreldrar tækifæri til að sinna áríðandi erindum eins og að skrá fjölskylduna á lista fyrir aðstoð í hamförum og hreinsun eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna í síðustu viku.  

Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa fyrir söfnun fyrir börn og fjölskyldur þeirra í Japan. Hægt er að leggja þeim lið með því að hringja í söfnunarsíma 904 1900 (1.900 kr. framlag) eða 904 2900 (2.900 kr. framlag). Einnig er hægt að leggja frjáls framlög á reikning samtakanna 0327-26–001989, kt. 521089-1059.