Börn á flótta við óviðunandi aðstæður

Yfir 13.000 manns – þar af 5200 börn leita nú skjóls í skólum, tómum rafmagnslausum byggingum og á víðavangi í Al Hasakeh, Tal Tamer og Al Raqqa í Sýrlandi. Í Al Hasakeh-borg þjóna 24 skólar tilgangi bráðabirgðaskýlis fyrir 4160 manns. Ekkert vatn er til staðar í borginni vegna skemmda á vatnsbirgðastöð sem gerir það að verkum að þúsundir manna treysta á að vatn sé keyrt inn í borgina.

Samer*, flúði heimili sitt og leitar nú skjóls í skóla í Al Hasakeh ásamt tveimur börnum sínum. Hann tjáði Barnaheillum – Save the Children:

Það er ekkert vatn hérna, engin salerni og lyktin er óbærileg. Það er ekkert í skólanum. Við óskum þess að alþjóðasamfélagið stígi inn í og stöðvi árásirnar. Við vonumst til að stríðið hætti og að við getum snúið aftur heim. Við erum niðurlægð og á flótta núna. Við eigum ekkert. Við skildum allar eigur okkar eftir. Við tókum einungis börnin okkar með. 

Sonia Khush, hjá Barnaheillum – Save the Children í Sýrlandi, sagði:

Þúsundir barna og fjölskyldur þeirra hafa enn eina ferðina neyðst til að yfirgefa allt til að flýja átök og leita skjóls á óviðeigandi stöðum þar sem grunnþörfum þeirra er ekki mætt. Staða íbúa norðaustur Sýrlands var mjög slæm áður en hefur nú versnað og treysta íbúar að mestu leyti á mannúðaraðstoð. Við skorum á alla deiluaðila að grípa til aðgerða til að lágmarka áhrifin á óbreytta borgara og veita mannúðarstofnunum ótakmarkaðan aðgang til að aðstoða börn í neyð.

Barnaheill – Save the Children eru á staðnum og veita lífsnauðsynlegan stuðning og fræðslu. Þú getur hjálpað okkur að hjálpa börnum í Sýrlandi með því að smella hér www.stodvumstridgegnbornum.is