Börn á stríðshrjáðum svæðum fleiri en nokkru sinni áður

Yfir 330 milljónir barna víðs vegar um heim eiga á hættu að vera neydd til að ganga til liðs við vígahópa - þrefalt fleiri en árið 1990, segir í nýrri skýrslu sem gefin var út í vikunni af alþjóðasamtökum Barnaheilla – Save the Children. Metfjöldi barna, eða tæpar 200 milljónir, búa á stríðshrjáðum svæðum í dag. Mörg þeirra eru nú þegar í mikilli hættu vegna áhrifa loftslagsbreytinga og matarskorts. Fjölgunina má að hluta til rekja til vopnaðra átaka í Mósambík, auk viðvarandi ófriðar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Nígeríu, Afganistan og Jemen.

Skýrslan sem nefnist ,,Stop the War on Children: A Crisis of Recruitment“ og kemur nú út í sjötta sinn, varpar ljósi á áhrif átaka á líf barna. Niðurstöður skýrslunnar sýna að yfirstandandi heimsfaraldur og ákall Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé á heimsvísu hafi ekki dugað til að koma í veg fyrir átök.

Samkvæmt skýrslunni búa 337 milljónir barna nálægt vopnuðum hópum, þá aðallega í Afghanistan, Sýrlandi, Jemen, Filippseyjum og Írak. Þessi tala hefur þrefaldast síðustu þrjá áratugi, en nálægð barna við vígahópana eykur hættu þeirra á að vera neydd til liðs við þá. Börnin eru í mikilli hættu á að slasast, kljást við langvinn andleg og líkamleg veikindi, vera beitt kynferðisofbeldi eða deyja.

Vandamál sem hafa versnað vegna heimsfaraldursins, eins og fátækt og lokun skóla, eru meðal ástæðna þess að börn eru í meiri hættu en áður á að vera neydd til liðs við vopnaða hópa. Hlutverk barna innan hópanna eru ýmis konar, allt frá því að berjast á framlínunni til þess að standa vörð á eftirlitsstöðum. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum voru aðeins 15% barnahermanna árið 2020 stúlkur. Þær draga síður að sér athygli og eru því gjarnan notaðar til að njósna, koma fyrir sprengjum og framkvæma sjálfsmorðsárásir. Mörgum börnum finnst freistandi að ganga til liðs við hópana vegna löngunar til að tilheyra, hljóta vernd gegn misnotkun, bæta stöðu sína eða til þess að ná fram hefndum.

Niðurstöður skýrslunnar sýna meðal annars að:

  • Yfir 450 milljónir barna á heimsvísu, eða 1 af hverjum 6 börnum, býr á átakasvæðum. Þetta er 5% aukning frá 2019.
  • Fjöldi vopnaðra hópa sem neyða börn til þátttöku í átökum hefur aukist frá 85 vígahópum árið 2019 upp í 110 árið 2020.
  • Sameinuðu þjóðirnar staðfestu nær 8.600 tilfelli þar sem börn voru nauðug skráð í vopnaða hópa eða stjórnarheri árið 2020, eða um 25 börn á dag. Þrátt fyrir heimsfaraldur hefur fjöldinn aukist um 10% frá árinu áður. Líklega er þetta þó aðeins brot af öllum þeim tilfellum sem eiga sér stað.

Viðtöl við 40 starfsmenn Barnaheilla - Save the Children í 14 löndum og svæðum um stöðu barna leiddu í ljós að:

  • mörg börn hafa alla tíð búið við átök sem hefur gríðarleg áhrif á andlega heilsu þeirra.
  • veik efnahagskerfi og skortur á grunnþjónustu, ástand sem hefur einungis versnað vegna Covid-19, bitnar einna verst á börnum sem búa við átök.
  • þeir sem fremja hrottafengin brot gegn börnum eru sjaldan látnir bera ábyrgð á gjörðum sínum.
  • aðgengi að menntun, sem skerðist oft fljótt þegar stríð brjótast út, gegnir mikilvægu hlutverki í því að vernda börn gegn ýmsum hættum sem verða til vegna átaka, eins og til dæmis því að vera neydd til að ganga til liðs við vopnaða hópa eða stjórnarheri.

Barnaheill – Save the Children hvetja alla aðila að vinna saman og láta gerendur voðaverka bera ábyrgð á gjörðum sínum, staðfesta og innleiða viðeigandi stefnur og lagaramma og sjá til þess að verndun barna verði sett í forgang í mannúðaraðstoð – en fjármagn til barnaverndar er lægra en nokkurn tímann áður. Að lokum hvetja samtökin sömu aðila til að styðja við börn sem eru fórnarlömb átaka, meðal annars þau sem eru neydd til að ganga til liðs við vígahópa.