Börn geta tilkynnt sjálf um ofbeldi og áreiti á neti

Nýtt veggspjald um Ábendingalínu Barnaheilla

Í tilefni alþjóðlega netöryggisdagsins 7. febrúar 2023, gefa Barnaheill út nýtt veggspjald til að vekja athygli á Ábendingalínu Barnaheilla. Veggspjaldinu er dreift í grunn- og framhaldsskóla, félagsmiðstöðvar, sundlaugar, íþróttamiðstöðvar og bókasöfn.

Veggspjaldið er hannað með það í huga að einfalt sé fyrir börn að nýta sér það og komast með einu skanni inn á Ábendingalínuna.

Mörg börn verða fyrir ýmsum óþægindum, svo sem ofbeldi og áreiti á netinu og það er mikilvægt að þau hafi aðgang að einfaldri leið til að tilkynna um það og kalla eftir aðstoð til að fjarlægja eða stöðva ofbeldið.

Barnaheill vilja því hvetja öll sem starfa með og fyrir börn að nýta tækifærið við útgáfu veggspjaldsins og fræða börn um netöryggi og góð samskipti á neti á alþjóðlega netöryggisdaginn ásamt því að kenna börnum að tilkynna til Ábendingalínu Barnaheilla.

Hægt er að panta veggspjaldið með því að senda póst á barnaheill@barnaheill.is eða hringja í síma. 5535900.