Börn í Sýrlandi skelfingu lostin við að sofa í tjöldum á meðan stormar geisa

Úrhellisrigning og flóð hafa undanfarið valdið miklum skaða í bæði flóttamannabúðum og þorpum víða í norðanverðu Sýrlandi þar sem jarðskjálftar skullu nýlega á og eru börn of óttaslegin til að sofa í tjöldum.

Flóðin hafa valdið miklum skaða fyrir fleiri en 4.000 fjölskyldur í norðanverðu Sýrlandi, sérstaklega í búðum settum upp fyrir fólk á vergangi. Að minnsta kosti 375 tjöld sem veittu fjölskyldum skjól hafa eyðilagst eða eru svo illa farin að ekki er lengur hægt að búa í þeim. Yfir 530 tjöld til viðbótar hafa skemmst. Flóðin hafa þar að auki lokað fyrir vegi og komið í veg fyrir að mannúðaraðstoð nái til fólks sem enn þarf á henni að halda vegna jarðskjálftanna í síðasta mánuði.

 

Samira er 38 ára þriggja barna móðir. Hún og börn hennar hafa búið í bráðabirgðabúðum síðan jarðskjálftarnir neyddu þau til þess að flýja búðirnar sem þau höfðu búið í undanfarin fjögur ár.

„Síðan jarðskjálftinn varð hef ég reynt að sannfæra börnin mín um að tjaldið sé öruggur staður. Þrumurnar og flóðin hræða bæði þau og mig og þau gráta undan þeim. Fólkið hérna segir að ef það heldur áfram að rigna gæti það drekkt búðunum algjörlega. Við höfum enn ekki jafnað okkur á jarðskjálftanum og nú þurfum við að eiga við þetta” Sagði Samira.

Sanaa, sem er sjö ára gömul, býr í öðrum búðum í norðanverðu Aleppo og segist hafa áhyggjur af yngri systkinum sínum. Hún sagði móður sinni: „Við skulum ekki sofa í nótt. Þú heldur á Majed (litli bróðir hennar) og ég skal halda á Söru (litla systir hennar) svo þau drukkni ekki í svefni.“ Fjölskyldan hefur búið í búðunum síðustu fjögur árin.

Barnaheill – Save the Children hafa veitt börnum í Sýrlandi aðstoð síðan frá árinu 2012. Úrræði Barnaheilla – Save the Children fela í sér neyðar- og lífsbjargandi aðstoð sem og snemmbúin bataúrræði sem stuðla að því að koma upp grunnþjónustu á ný með því markmiði að ná til hvers einasta barns í neyð.