Börn í Úkraínu í brýnni þörf fyrir aðstoð

Hér læra börn landafræði í kjallara skólans eftir að sprengjuviðvörun fór í gang.
Hér læra börn landafræði í kjallara skólans eftir að sprengjuviðvörun fór í gang.

Nú þegar stríð hefur varað í Úkraínu í eitt ár eru tvær af hverjum fimm fjölskyldum í landinu í brýnni þörf fyrir lífsviðurværi og grunnvörur vegna mikils fólksflótta, verðbólgu og atvinnuleysis.

Anna og börnin hennar þrjú ná ekki að standa undir útgjöldum á nýja heimilinu sínu í vesturhluta Úkraníu. Eftir að þau fluttu frá heimabænum þeirra í Donbas í september áttu þau varla pening og neyddust til að deila íbúð með öðru fólki. Þau gátu ekki greitt fyrir leigu, mat og föt. Barnaheill hafa veitt fjölskyldunni peningaaðstoð til að mæta grunnþörfum þeirra.

Áður átti Anna ekki í vandræðum með að útvega börnunum sínum það sem þau þurftu. Maksym 17 ára sonur Önnu tekur undir það og segist alltaf hafa fengið nýja skó fyrir veturinn. Anna þráir ekkert heitar en að snúa aftur heim en skilur vel að það sé ómögulegt eins og staðan er í dag.

5,3 milljónir manna eru fjarri heimilum sínum í Úkraínu og þörfin fyrir fjárhagsaðstoð til þessa fólks eykst frá degi til dags. Einn af hverjum fjórum í hópi þessa fólks er atvinnulaus þar sem vinna er af mjög skornum skammti, margir foreldrar eiga þar af leiðandi í erfiðleikum með að finna vinnu og húsnæði. Sumir íbúa Úkraníu kjósa að snúa aftur til stríðshrjáðra heimabæja sinna til að finna vinnu þar.

Þar á meðal fjölskyldan hans Antons, 12 ára. Í mars síðastliðnum fór Anton og foreldrar hans frá Kharkiv til vesturhluta Úkraníu eftir að stöðugar sprengingar gerðu lífið óbærilegt. Nokkrum mánuðum síðar neyddist faðir Antons til að snúa aftur til heimabæjarins.

Olha móðir Antons segir að maðurinn hennar hafi verið kallaður til að snúa aftur í vinnu. Anton sneri ekki heim vegna þess að húsið þeirra var eyðilagt. Börnin hafa áhyggjur, þau spyrja stöðugt hvenær pabbi þeirra muni búa hjá þeim og hvenær þau verði öll saman. Það líður ekki sá dagur að þeir hugsi ekki um það.

Sonia Khush yfirmaður skrifstofu Barnaheilla – Save the Children í Úkraníu segir að stríðið hafi mjög mikil áhrif á börn og fjölskyldur ,,Þörf fjölskyldna í Úkraníu er gríðarleg og hún heldur áfram að vaxa þar sem stríðið sekkur á hverjum einasta degi fleiri og fleiri börnum og foreldrum í fátækt. Fólk missir framfærsluna þar sem fyrirtæki um allt land halda áfram að vera lokuð“.

,,Börn og fjölskyldur þeirra í Úkraníu þurfa á mannúðaraðstoð að halda til að tryggja að þau geti lifað í öryggi og reisn með fjölskyldum sínum en einnig til að þau eigi framtíð til að hlakka til. Börnin eru framtíð Úkraníu en núverandi þróun þeirra og framtíð er verulega hamlað af áframhaldandi ófriði," heldur Sonia áfram. 

 

Fyrir stríð stunduðu 400 nemendur nám í þessum skóla í norður Úkraínu. Skólinn hefur verið eyðilagður.