Börnum sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda fjölgar um 20% á milli ára

Á nýliðnu ári jókst fjöldi barna sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda um 20%. Árið á undan, árið 2021 voru börn sem þurftu á mannúðaraðstoð að halda 123 milljónir en eru í dag 149 milljónir. Helmingur þessara barna býr í einungis sjö löndum. Fjölgun barna í neyð má rekja til aukinna átaka, hungurs og loftslagsbreytinga í heiminum.

Mannúðaraðstoð felur í sér að bjarga mannslífum, standa vörð um mannlega reisn og draga úr þjáningum þar sem neyðarástand hefur skapast. Með mannúðaraðstoð Barnaheilla leggja samtökin áherslu á að veita aðstoð til að mæta grunnþörfum fólks á borð við matargjafir, læknisþjónustu, hreint vatn og húsaskjól.

Afganistan er efst á lista yfir fjölda barna sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda en áætlað er að 14,2 milljón börn þar í landi þurfi aðstoð. Þar á eftir kemur Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, eða 13,9 milljón börn. Alls búa 95 milljónir í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó en samtals eru 26,5 milljónir sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda. Þrátt fyrir þennan háa fjölda fékk landið minna en helming af fjármögnunarmarkmiði Sameinuðu þjóðana sem átti að fara í mannúðaraðstoð á síðasta ári.

Amavi Akpamagbo, framkvæmdastjóri Barnaheilla í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, sem Barnaheill á Íslandi vinna náið með, segir löngu tímabært að Lýðstjórnarlýðveldið Kongó fái meiri fjármögnun.

,,Samfélögin þar sem Barnaheill starfa í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó eru í sárri neyð. Með auknum átökum í austurhluta landsins hafa yfir 390.000 manns þurft að flýja heimili sín á síðustu mánuðum. Einnig hefur hungurkreppan aukist þar sem 3,3 milljón börn undir 5 ára aldri eru vannærð og 45% dauðsfalla barna undir 5 ára aldri er af völdum hungurs. Til fjölda ára hefur alþjóðasamfélagið litið framhjá þeirri neyð sem ríkir í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og geta börn þar í landi ekki beðið lengur. Við þurfum fjármögnun til þess að aðstoða börn."

Á heimsvísu standa yfir fleiri átök en nokkru sinni fyrr frá því að síðari heimsstyrjöldin leið undir lok. Börn eru mun líklegri til að deyja úr sprengjuárásum í átökum en fullorðnir. Auk þess eru börn sem búa á átakasvæðum eins og í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Afganistan, Jemen og Eþíópíu berskjölduð fyrir mannréttindabrotum. Réttarkerfið í þessum löndum er víða brotið þar sem brot gegn börnum leiðir ekki til refsinga.

Ítarlegri frétt má lesa hér af heimasíðu alþjóðasamtaka Barnaheilla.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi starfa í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Þar reka samtökin sex Barnvæn svæði í Suður-Kivu og halda utan verkefni fyrir götubörn í Goma, sem er í austurhluta landsins. 

 

Þrátt fyrir að skortur er á mannúðaraðstoð í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó reka Barnaheill - Save the Children öflugt starf í þágu barna. 

Barnaheill dreifa meðal annars matargjöfum til fjölskyldna í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og um allan heim.


Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.