Börnin njóta ávallt vafans

Ef inn kemur ábending og mitt mat er að einhvers konar misnotkun sé tengd barni, nýtur barnið alltaf vafans,“ segir Hjálmar V. Björgvinsson, verkefnastjóri hjá Ríkislögreglustjóra.
Frá árinu 2001 hafa Barnaheill rekið ábendingalínu í samvinnu við embættið. Efni, þar sem börn eru sýnd á kyn ferðislegan hátt og/eða þau eru beitt kynferðisofbeldi, hefur aukist mikið á netinu. Slíkt ofbeldi hefur lang varandi og skelfileg áhrif á börn. Framleiðsla, varsla, dreifing og skoðun á slíku efni er ólögleg.
Ábendingalínan er nú aðili að SAFT-verkerfninu, en SAFT stendur fyrir Samfélag, fjölskyldu og tækni, og er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi.
Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum segir mjög mikilvægt að stemma stigu við slíku efni; „Það þarf að uppræta það, finna þolendur og koma þeim til hjálpar. Alþjóðlegt samstarf er ein forsenda þess.“ Frá árinu 2001, hafa borist ríflega 4000 ábendingar í gegnum ábendingahnappinn. þar af eru 34% ábendinganna um efni þar sem börn eru beitt kynferðisofbeldi og sýnd á kynferðislegan hátt. Á árinu 2012 komu inn 223 tilkynningar og er það mikil fjölgun frá árinu áður.
Hjálmar segir að ábendingar sem berist í gegnum línuna hér tengist sjaldnast aðilum á Íslandi. Árlega séu 2-3 mál tekin til rannsóknar hér landi. Flestar snúi þær að erlendum síðum sem séu vistaðar í öðrum löndum. Samstarfsaðilar embættisins hjá Interpol fari þá í málið í viðkomandi landi.
Á síðasta ári bárust meira en ein milljón ábendinga um ólöglegt efni í gegnum ábendingalínur Inhope. Af þessum ábendingum voru rúmlega 37.000 um efni þar sem börn voru sýnd á kynferðislegan hátt. Í gagnagrunni Interpol, sem verið hefur í notkun frá árinu 2001, er að finna meira en eina milljón mynda sem sýna kynferðislegt ofbeldi gegn meira en 20.000 börnum, en einungis hafa um 800 þessara barna fundist og fengið nauðsynlegan stuðning. „Þeir sem standa á bakvið þetta eru oft búnir að gera varaplan. Ef einni síðu er lokað, eru þeir gjarnan tilbúnir með þá næstu og þarnæstu, sem eru þá jafnvel í öðrum löndum. Sem betur er ekki mikið um þetta hér á Íslandi, en þetta er því miður mikill iðnaður útí heimi,“ segir Hjálmar að lokum.


Viðtal og mynd: Sigríður Guðlaugsdóttir