Börn í Pakistan glíma enn við sálrænar afleiðingar flóðanna nær hálfu ári eftir að þau hófust

Sex mánuðum eftir að fordæmalaus flóð gengu yfir Pakistan sýnir ný rannsókn Barnaheilla – Save the Children, „Psychological Assessment Report - Psychosocial Problems and Needs of Children in Flood Affected Areas in Pakistan“, að 87% barna á flóðasvæðunum eru taugaveikluð og árásargjörn, 75% barna geta ekki tjáð sig eðlilega og 70% upplifðu öryggisleysi og ótta við annað fólk, vatn, víðáttu og myrkur.„Þessi rannsókn sýnir okkur að börn eru enn buguð og skelkuð yfir þessum atburðum.

Mörg þeirra fá martraðir og þau hafa ekki náð að vinna úr tilfinningum sínum eftir hörmungarnar. Börnin eiga ekki almennileg föt, þau hafa týnt leikföngunum sínum og skólar þeirra eru enn lokaðir,“ segir David Wright, framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children í Pakistan. „Þetta er bara of mikið fyrir barn að eiga við. Ef þessi börn fá ekki nægilega aðstoð til að glíma við tilfinningaleg vandamál sín, gætu þau fylgt þeim fram á fullorðinsár og komið fram í lágu sjálfsmati og skorti á sjálfstrausti.“

Börn báru hitann og þungann af hinum skelfilegu flóðum sem riðu yfir landið fyrir sex mánuðum og höfðu áhrif á líf nærri 21 milljónar manna í héruðunum Sindh, Punjab og Khyber Pakhtunkhwa (KPK). Fjölskyldur neyddust til að flýja þegar heimili þeirra urðu fyrir flóðunum sem færði bæi og þorp í kaf.Flóðin eyðilögðu meira en 2,2 milljónir hektara af jarðargróðri og ræktarlandi svo lítið varð um korn, hrísgrjón, sykur, ávexti og grænmeti. Fólk missti lífsviðurværið og gat ekki séð fyrir fjölskyldum sínum. Börn hafa því verið neydd til að vinna og stúlkur hafa verið giftar snemma til að létta fjárhagsáhyggjur foreldranna.

Í rannsókninni kemur fram að ríflega 6000 börn í Punjab, KPK og Sindh vinna erfiðisvinnu til að styðja fjölskyldur sínar. Þá hafa fundist 300 tilfelli um snemmbúin barnahjónaband á svæðum sem urðu fyrir flóðunum.„Þarfir barnanna verða mjög undir þegar foreldrar þeirra búa við svo mikið álag. Við erum að veita börnum tilfinningalegan stuðning til að mæta þessu, m.a. með því að koma á barnvænum svæðum og með því að bjóða upp á sálfræðiþjónustu,“ segir David Wright.Samkvæmt rannsókninni, misstu börn og fjölskyldur þeirra allt í flóðunum sem skiljanlega olli þeim miklum þjáningum.

Rætt var við börn á aldrinum fimm til fimmtán ára í Muzaffargarh og Rajanpur í Punjab héraði og á Swat landssvæðinu í Khyber Pakthunkhwa. Fylgst var með hegðan þeirra með því að beita aðferð sem nefnd er „Teiknaðu manneskju“. Þessi aðferð leiddi í ljós tilfinningar og persónuleika barnanna og gaf rannsakendum færi á að greina ástand þeirra.Frá því að flóðin hófust, hafa Barnaheill – Save the Children komið á fót 174 öruggum leiksvæðum fyrir börn á þeim svæðum sem verst urðu úti og að minnsta kosti 130.308 börn hafa notið góðs af lífsnauðsynlegum tilfinningalegum stuðningi, t.d. í gegnum list-meðferð, hópráðgjöf og leik.Þá fá börnin einnig kennslu í því hvernig takast eigi á við daglegt líf í tjaldbúðum.

Enn eru 7 milljónir manna á vergangi. Flóðin í júlí og ágúst eru einar stærstu hamfarir sem orðið hafa í Pakistan á síðustu þúsund árum og hafa haft áhrif á líf fleiri en jarðskjálftinn í Kashmir árið 2005, fellibylurinn Katrína sama ár, fellibylurinn Nargis árið 2008, flóðbylgjan í Indlandshafi árið 2004 og jarðskjálftinn á Haítí árið 2010 gerðu samanlagt.„Hamfarir af þessari stærðargráðu gera það ákaflega brýnt að tryggja börnum og fjölskyldum þeirra aftur viðunandi húsnæði og aðgang að skólum svo þau geti hafið nýtt líf,“ segir David Wright.

Hins vegar stöndum við frammi fyrir gríðarlegum ágreiningsefnum hvað varðar landrými og það verður á brattann að sækja við að koma börnum og foreldrum fyrir að nýju. Á sumum svæðum, hefur flóðavatnið ekki hopað svo fjölskyldur geta einfaldlega ekki snúið aftur til sinna heima. Uppbyggingin mun taka mun lengri tíma en áður var talið. Til að mæta þeim stöðugu þörfum sem hér eru, verðum við að fá áframhaldandi stuðning frá alþjóðasamfélaginu.

“Barnaheill - Save the Children hafa náð til ríflega 2,6 milljóna manna sem orðið hafa fyrir skaða vegna flóðanna, í gegnum neyðarhjálp, með dreifingu tjalda, húsbúnaðar til eldamennsku, vatnshreinsunarpokum, matvælum og með andlegum stuðningi og skólagöngu fyrir börn.Skýrsluna – „Psychological Assessment Report - Psychosocial Problems and Needs of Children in Flood Affected Areas in Pakistan“- má finna hér.Sex mánaða stöðuskýrsla Barnaheilla – Save the Children um starf samtakanna í Pakistan má finna hér .