Börn vantar frjálsan tíma

Arnór Gauti Jónsson er formaður ungmennaráðs Barnaheilla. Hann vinnur með krökkum á ýmsum aldri hjá Dale Carnegie þar sem hann heyrir af ýmsu því sem drífur á daga þeirra.

Arno´r Gauti Jo´nsson umrArnór Gauti Jónsson er formaður ungmennaráðs Barnaheilla - Save the Children á Íslandi. Arnór er 21 árs og kynntist ráðinu í gegnum Dale Carnegie þar sem hann hefur verið aðstoðarmaður. Þar vinnur hann með krakka á ýmsum aldri og heyrir af ýmsu því sem drífur á daga þeirra. „Maður sér svo margt sem krakkarnir ganga í gegnum og hvað hefur áhrif á þau og þessar upplýsingar nýtast vel í starfi ungmennaráðsins.“

Helstu málefni ungmennaráðsins í vetur hafa snúið að forvörnum á ýmsum sviðum. Hvað skiptir máli fyrir börn og hvar þarf aðhald. Gauti segir eitt málefnanna vera hvað börn eru látin axla mikla ábyrgð snemma á lífsleiðinni og sum þeirra fari að vinna mjög fljótt.

„Mér finnst það áhyggjuefni hvað mörg börn fá lítinn tíma til að vera frjáls. Dagskráin er svo þétt. Eftir skóla taka viðskipulagðir viðburðir í formi tómstunda og íþrótta og þegar heim er komið er það heimalærdómurinn. Það er lítill tími fyrir annað og mér finnst vanta þennan frjálsa tíma þar sem börn fá að njóta sín sem krakkar. Börn eiga rétt á að vera börn og það finnst mér oft gleymast.“

Hlutverk ungmennaráðsins er meðal annars að vekja athygli á málefnum sem varða réttindi og stöðu barna. Í tilefni af 25 ára afmæli Barnasáttmálans næsta vetur vinnur ráðið nú að undirbúa og skipuleggja gjörning til að vekja
athygli á þessum tímamótum. Unnið er með ungmennaráðum annarra samtaka og lögð áhersla á að minna á mikilvægi þess að rödd barna og ungmenna heyrist í íslensku samfélagi.

Markmiðið með starfi ungmennaráðsins er annars vegar að stuðla að bættum hag barna og hafa áhrif á viðhorf til barna í samfélaginu og hins vegar að virkja börn og unglinga til að taka þátt í að móta það samfélag sem þau eiga aðild að.

Viðtal og mynd: Sigríður Guðlaugsdóttir

Viðtalið var birtist fyrst í Blaði Barnaheilla.