Börn upplifa mismunun vegna námsgagna - undirskriftasöfnun

„Sums staðar er ástandið það slæmt að skólinn þarf að taka sum börn undir sinn verndarvæng og útvega þeim námsgögn. Þá finna börnin til vanmáttar gagnvart umhverfi sínu, önnur börn taka eftir þessu og þannig upplifa börn mismunun og líða fyrir slæma efnahagsstöðu foreldranna,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldri og grunnskólakennari í Reykjavík.

IMG_0993„Sums staðar er ástandið það slæmt að skólinn þarf að taka sum börn undir sinn verndarvæng og útvega þeim námsgögn. Þá finna börnin til vanmáttar gagnvart umhverfi sínu, önnur börn taka eftir þessu og þannig upplifa börn mismunun og líða fyrir slæma efnahagsstöðu foreldranna,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldri og grunnskólakennari í Reykjavík.

Nú stendur yfir lokahnykkur í undirskriftasöfnun Barnaheilla þar sem skorað er á stjórnvöld að breyta grunnskólalögum og afnema gjaldtöku fyrir námsgögn.

„Um leið og við afnemum þennan kostnað foreldra hverfur stór þáttur sem snýr að mismunun barna,“ segir Ragnheiður og segist sem grunnskólakennari vita um fjölda foreldra sem ekki hafi efni á að kaupa þessa hluti.

Ragnheiður Davi´ðsRagnheiður er með þrjú börn í grunnskóla, öll á sitt hverju stiginu og greiddi rúmlega 35 þúsund krónur fyrir námsgögn barnanna í fyrra. Þá er ótalinn annar kostnaður við skólagönguna svo sem skólatöskur, pennaveski, leikfimiföt og fleira. Oft þarf einnig að bæta við yfir árið, gjarnan um 10 þúsund krónum til viðbótar; „Það er auðvitað hægt að gera þetta skynsamlega, en það kostar mjög mikla vinnu og tíma að þræða öll tilboð - fyrir utan bensínkostnaðinn - svo stundum er lítill sparnaður í að eltast við hundraðkallana.“

„Þetta getur verið þungur baggi fyrir barnmargar fjölskyldur og getur auðveldlega stuðlað að mismunun, sem börn eiga rétt á vernd gegn,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Samtökin hafa fengið mikil viðbrögð frá foreldrum sem fagna því að þrýst sé á um að afnema innkaupalistana.

„Það eru mörg börn mjög illa stödd vegna bágs efnahags foreldra og skólar þurfa stundum að grípa inn í og útvega þeim námsgögn og skólatöskur.“ Inngrip skóla er þó ekki endilega börnunum til góða; „Því þó skólinn reddi málunum er það ekki endilega hagur barnsins vegna þess að það getur lent í aðkasti og er mjög meðvitað um sína stöðu.“

Öll börn eiga rétt á grunnmenntun án endurgjalds samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur lögfest. Í 2. grein sáttmálans er jafnframt kveðið á um að ekki megi mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra, svo sem vegna efnahags.

Smelltu Til baka