Byrgjum eineltisbrunninn

Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.
Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.

Dagur gegn einelti 2021, 8. nóvember

Einelti getur verið fyrsta stefið í langri áfallasögu einstaklings. Einelti er sem dropinn sem byrjar að hola steininn. Þannig brýtur einelti smátt og smátt niður sjálfsmynd einstaklings. Barn sem verður fyrir einelti getur talið sig lítils virði og ekki eiga neitt gott skilið. Eineltið getur því gert viðkomandi berskjaldaðri fyrir annars konar ofbeldi og jafnvel sjúkdómum. Forvarnir gegn einelti eru því forvarnir gegn svo mörgu öðru.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi bjóða leik- og grunnskólum, svo og frístundaheimilum og dagforeldrum upp á verkefni sem miðar að því að búa börnum umhverfi þar sem einelti nær ekki að festa rætur og þrífast. Verkefnið nefnist Vinátta - Fri for Mobberi, er danskt að uppruna og er byggt á rannsóknum. Fjólublái bangsinn Blær sem er táknmynd Vináttu býr nú í meira en 65% leikskóla landsins ásamt hjálparböngsunum litlu sem börnin eiga. Blær hjálpar til við að byggja upp samkennd, kenna börnunum umburðarlyndi fyrir margbreytileikanum, virðingu fyrir hverjum og einum, umhyggju og hugrekki til að setja sér mörk og bregðast við órétti. Til þess notar Blær fjölbreytt Vináttu námsefni frá Barnaheillum. Nú hefur Blær jafnframt tekið sér bólfestu í um 30% grunnskóla. Blær brúar því bilið milli leik- og grunnskóla í fjölmörgum sveitarfélögum og skólahverfum.

Samkvæmt Vináttu er einelti samfélagslegt, félagslegt og menningarlegt mein en ekki einstaklingsbundinn vandi. Því þarf ávallt að vinna með hópinn sem heild.

Öll börn eiga rétt á að tilheyra hópi, tilheyra samfélagi og að vera virt að eigin verðleikum. Jarðvegur skapast fyrir einelti þegar eitt eða fleiri börn óttast að þau verði útundan í hópnum, útundan í leik, ekki tekið mark á tillögum þeirra eða skoðunum. Því skapast togstreita og valdabarátta innan hópsins, barátta um vinsældir. Þessi togstreita getur jafnvel varað árum saman og stuðlað að goggunarröð og útilokun. Ýmislegt er notað sem fóður eða réttlæting fyrir útilokun eða einelti og fer það algjörlega eftir hentugleika, stað og stund, hver sem er getur orðið skotspónn hverju sinni. Vinátta er í senn námsefni og verkfæri til að brjóta upp slæm samskiptamynstur og aðferðir við að koma í veg fyrir útilokun og einelti.

Mörg þúsund kennarar og aðrir starfsmenn skóla hafa sótt námskeið um Vináttu á vegum Barnaheilla undanfarin ár og innleitt hugmyndafræðina í skólastarfið. Það hefur sannarlega skilað sér. Börnin sýna hvert öðru meiri tillitssemi og umhyggju. Þau hughreysta félaga sína oftar og hafa frumkvæði að því að grípa inn í ef þau verða vitni að ranglæti. Þau öðlast hugrekki og kjark til að skipta sér af – segja „stopp“ og þau taka stundum sjálf ábyrgð á að miðla málum þegar kemur upp ósætti. Allir þessir starfsmenn skóla eiga sannarlega þakkir skilið.

Við hjá Barnaheillum eigum þá von að innan fárra ára muni einelti meðal barna vera hverfandi. Með þátttöku sem flestra leik- og grunnskóla og samfélagsins alls í Vináttu leggjum við lóð á þær vogaskálar.