Covid-19: Fjöldi barna sem býr við fátækt mun aukast um 86 milljónir á þessu ári samkvæmt nýrri skýrslu

Ný greining frá Barnaheillum - Save the Children og UNICEF leiðir í ljós að án nauðsynlegra aðgerða gæti fjöldi barna sem býr við fátækt í lág- og millitekjuríkjum aukist um 15% og náð 675 milljónum í lok árs.

Vegna efnahagslegs samdráttar í heiminum, af völdum Covid-19, gæti börnum sem búa við fátækt fjölgað um 86 milljónir á þessu ári, samkvæmt nýrri greiningu Barnaheilla - Save the Children og UNICEF sem gefin var út í dag.

Í skýrslunni er lögð áhersla á nauðsynlegar aðgerðir til þess að vernda fjölskyldur gegn fjárhagslegum þrengingum af völdum Covid-19. Samkvæmt skýrslunni er hætta á því að heildarfjöldi barna sem býr undir fátæktarmörkum gæti farið í 672 milljónir í árslok 2020. Nær 2/3 hluti þessara barna býr í sunnanverðri Afríku og í Suður-Asíu. Áætlað er að mesta aukningin á börnum er búa við fátækt verði í Evrópu og mið-Asíu eða allt að 44% aukning á þeim svæðum. Í Suður-Ameríku og Karabískahafinu gæti aukningin orðið allt að 22%.

„Heimsfaraldurinn hefur hrint af stað fordæmalausri félags- og efnahagskreppu sem eykur fátækt hjá fjölskyldum úti um allan heim,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF. „Umfang kreppunnar eykur fátækt og er það stórt skref afturábak frá þeirri framför sem hefur átt sér stað síðustu ár, við að draga úr fátækt meðal barna. Án samstilltra aðgerða verður milljónum barna ýtt í fátækt vegna ástandsins og fátækustu fjölskyldurnar munu upplifa sárari fátækt en við höfum séð í marga áratugi."

Barnaheill - Save the Children og UNICEF vara við þeim áhrifum sem heimsfaraldurinn hefur á efnahag ríkja. Þegar samdráttur er í ríkisfjármálum er hætta á að ríkið dragi úr umfangi og gæðum þjónustu sem fjölskyldur eru háðar. Einnig hafa takmarkanir sem ríki hafa sett á til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu Covid-19 bein áhrif á efnahag fjölskyldna. Skjótt tekjutap getur þýtt að fjölskyldur hafa ekki efni á að sinna grunnþörfum sínum, eins og að kaupa mat og vatn. Einnig er ólíklegt að fjölskyldumeðlimir hafi tök á að sækja sér heilbrigðisþjónustu eða menntun. Fátækt ýtir einnig undir barnahjónabönd, ofbeldi og misnotkun.

Inger Ashing, framkvæmdastjóri Save the Children, segir nauðsynlegt að bregðast við núna. „Efnahagsleg áhrif Covid-19 munu helst bitna á börnum. Börn eru mun viðkvæmari fyrir hungri og vannæringu en aðrir - sem getur haft áhrif á þau alla ævi. Ef við bregðumst við núna þá getum við komið í veg fyrir þá efnahagslegu ógn sem fátækustu fjölskyldur heims standa frammi fyrir. Þessi skýrsla ætti að opna augu okkar. Það er hægt að koma í veg fyrir fátækt meðal barna.“

Fyrir heimsfaraldurinn höfðu tvö af hverju þremur börnum úti um allan heim ekki aðgang að félags- eða sálfræðilegri aðstoð. Því getur það haft mikil áhrif á þessi börn þegar fjölskyldan verður skyndilega fyrir tekjutapi. Í dag hafa einungis 16% barna í Afríku aðgang að félagslegri þjónustu.

 

Hundruð milljóna barna búa við fátækt í heiminum - sem þýðir að þau skortir aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun,næringu eða fullnægjandi húsnæði. Fyrir börn sem búa í löndum sem hafa orðið fyrir átökum, þá eykur Covid-19 enn frekar hættuna á óstöðugleika og að fjölskyldur lendi í fátækt. Í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku er fjöldi barna sem lifir á átakasvæðum mestur, en þar býr nær helmingur barna við fátækt.

Til að takast á við og draga úr þeim efnahagslegu áhrifum sem Covid-19 hefur á fjölskyldur, kalla Barnaheill - Save the Children og UNICEF eftir skjótum og umfangsmiklum aðgerðum til þess að vernda börn. Barnaheill - Save the Children og UNICEF telja nauðsynlegt að efla stuðning við barnafjölskyldur með því að koma á barnabótakerfi, stuðla að menntun barna og öðrum leiðum til þess að auka félagslega vernd barna svo þau geti tekist á við áföll. Einnig er lögð áhersla á að styrkja heilbrigðiskerfi, koma á betra velferðarkerfi og styðja við fæðingarorlof fyrir foreldra. Ríkisstjórnir verða að taka þátt í að fjárfesta í félagslegri vernd, auka ríkisframlög, skapa atvinnutækifæri og stuðla að inngripum á vinnumarkaði til þess að styðja við fjölskyldur.

 

Frá því að Covid-19 skall á, hafa mörg lönd þegar bætt félagsverndarkerfi sín:

  • Í Indónesíu, var veitt 20 milljón dollara framlagi til hinnar svokölluðu Kartu Sembako áætlunar, sem veitir mánaðarlega peningaaðstoð til fjölskyldna. Upphæð aðstoðarinnar sem fjölskyldur móttaka var hækkuð um 25%.
  • Í Mongólíu verða barnabætur fimmfalt hærri næstu sex mánuði en fjölskyldur þar í landi fá barnabætur mánaðarlega.
  • Í Suður-Afríku er búið að koma á ýmsum félagslegum verndaráætlunum, þar með talið barnabótakerfi sem nær til 12,8 milljóna barna.
  • Í Armeníu munu fjölskyldur, sem skráðar eru í félagsbótakerfið, fá aukagreiðslu úr ríkissjóði sem jafngildir 50% af bótunum.
  • Í Perú veitir ríkisstjórn bætur til heimila á landsbyggðinni og til fátækra fjölskyldna, aðstoðin nær til 6,8 milljóna heimila. Sérstök áhersla er lögð á að ná til fólks sem býr á afskekktum svæðum, frumbyggja og flóttamanna.