Covid-19 tilfellum fjölgar um meira en 500% á einni viku Afríku

Biðstofa á spítala í Zimbabwe.
Biðstofa á spítala í Zimbabwe.

Tilfellum Covid-19 hefur fjölgað verulega á síðastliðinni viku í Afríku og hefur það sett gríðarlegt álag á heilbrigðisstofnanir í álfunni. Flestar þeirra eru ekki í stakk búnar til að takast á við það aukna álag sem sjúkdómnum fylgir. Nú hafa alls 2,412 tilfelli verið staðfest í 43 löndum í Afríku – en það er 500% aukning frá 17. mars. Suður-Afríka hefur flest staðfest smit af Covid-19 og Burkina Faso þar á eftir.

Útbreiðsla veirunnar vekur upp miklar áhyggjur þar sem veiran getur yfirtekið heilbrigðiskerfið í allri álfunni ef smittíðni heldur áfram að hækka. Ef veiran heldur áfram að breiðast út með þessum hraða eru þúsundir barna í hættu en aukin smittíðni getur valdið röskun á næringu barna, bólusetningum og annarri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisstarfsmenn eiga á hættu að veikjast sem getur valdið miklum usla í heilbrigðiskerfinu.

Börn víða um álfuna þjást af vannæringu og deyja úr banvænum sjúkdómum á borð við malaríu, lungnabólgu og niðurgangi og er hætta á að Covid-19 hafi áhrif á núverandi aðgerðir gegn því. Hætta er á því að fjöldi heilbrigðisstofnana standist ekki álagið sem fylgir Covid-19 og muni þurfa að forgangsraða aðgerðum.

Til þess að styðja við börn og fjölskyldur þeirra í Afríku og annarstaðar í heiminum, þar sem þörfin er mikil vegna Covid-19, kalla Barnaheill - Save the Children eftir aukinni aðstoð til þess að vernda börn í löndum sem verða fyrir barðinu á Covid-19. Það verður gert með því að auka stuðning við heilbrigðiskerfi, veita börnum andlegan stuðning og styðja við börn sem missa foreldra sína úr Covid-19.

Stjórnvöld víðsvegar um Afríku hafa nú þegar brugðist við Covid-19 með því að koma á útgöngubanni, skerðingu á flugsamgöngum og hreinlætisherferðum fyrir almenning. En í ljósi þess hve hröð útbreiðsla veirunnar hefur verið undanfarna daga telja Barnaheill - Save the Children þörf á hertari aðgerðum. ,

Alþjóðasamfélagið má ekki skorast undan alþjóðlegri ábyrgð. Við vitum það vel að ef við hunsum smit í einu landi, er það fljótt að breiðast út til annarra landa. Þetta er alþjóðlegt vandamál og við verðum að styðja við þau lönd sem hafa veikt heilbrigðiskerfi. Þessi lönd hafa minni getu til þess að takast á við veiruna og mun það hafa mjög mikil áhrif á börn og fjölskyldur þeirra,

Eric Hazard - Save the Children.

Heilbrigðisaðstaða í Mósambík

 

Barnaheill - Save the Children hvetja alþjóðasamfélagið til þess að auka fjármagn sitt til að styðja við ríkisstjórnir í Afríku. Samtökin benda á að ríkisstjórnirnar þurfi mikinn stuðning til þess að koma í veg fyrir veiruna í Afríku og hvetja til eftirfarandi ráðstafana:

  • Að tryggja að öll samfélög hafi greiðan aðgang að hreinlætisbirgðum eins og öruggu vatni og sápu, og viðeigandi leiðbeiningum um handþvott.
  • Að miðla aðgengilegum forvörnum gegn Covid-19 í gegnum fjölmiðla á landsvísu og hafa barnvæna blaðamannafundi.
  • Að þróa og útfæra barnvænar upplýsingaherferðir til að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra að vernda sig gegn smiti.
  • Að tryggja öllum börnum aðgang að námi, jafnvel þó að skólar séu lokaðir, til dæmis með fjarnámi.
  • Að berjast gegn röngum upplýsingum um Covid-19 sem geta valdið auknum kvíða og vanlíðan hjá börnum og fullorðnum.

Þú getur hjálpað