Dagur mannréttinda barna er á laugardaginn

Næstkomandi laugardag er Dagur mannréttinda barna. Allir þeir sem vinna með börnum eða að málefnum barna eru hvattir til að kynna sér og fjalla um réttindi barna þennan dag.

Barnaheill hafa haldið utan um framkvæmd þessa dags frá upphafi og hvetja árlega kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum til að stuðla að fræðslu um mannréttindi barna. Sendar eru í skólana hugmyndir að því hvernig hægt er að skipuleggja slíka fræðslu auk þess sem kennurum er bent á vefina barnasattmali.is og vefsíðu Barnaheilla.

Að þessu sinni mælast samtökin til þess að notast verði við þrenns konar verkefni sem kennarar geta valið úr og útfært fyrir nemendur í kringum daginn. Fyrsta verkefnið snýr að framtíðarsýn nemenda, annað að upplifun og lærdómi af Covid-19 og hið þriðja að nemendaþingi í skólanum. Nánari upplýsingar um verkefnin er að finna hér á vefsíðu Barnaheilla.

Dagur mannréttinda barna er öllum þeim sem vinna að málefnum barna og ungmenna um allan heim sérstaklega hugleikinn. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur á Alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þennan dag árið 1989 en sáttmálinn markaði gríðarlega mikilvæg tímamót í málefnum barna.

Það var svo árið 2016 sem samþykkt var á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skyldi helgaður fræðslu um mannréttindi barna. Barnaheillum – Save the Children á Íslandi var falið af innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að sjá um framkvæmd dagsins.

Í þingsályktunartillögu félags- og barnamálaráðherra vorið 2021 um Barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að dagurinn skuli efldur frá og með árinu 2021. Vinna skuli að því að gera 20. nóvember hærra undir höfði og nýta daginn enn frekar við fræðslu og vitundarvakningu um réttindi barna. Auk mennta- og menningarmálaráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins bera forsætisráðuneyti og félags- og barnamálaráðuneyti einnig ábyrgð á deginum

Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um þau réttindi sem öll börn eiga að njóta. Öll börn, óháð stöðu þeirra, skulu njóta þeirra mannréttinda sem kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki má mismuna börnum hvað þau réttindi varðar.