Ég á mér stóra drauma

Najmo Cumar Fiyasko.
Najmo Cumar Fiyasko.

Segir Najmo Cumar Fiyasko í viðtali sem birtist í Blaði Barnaheilla sem kom út í maí síðastliðnum. Najmo starfar með ungmennaráði Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Najmo Cumar Fiyasko er 19 ára gömul og kemur frá Sómalíu. Hún hefur verið virk í starfi ungmennaráðs Barnaheilla síðan 2017 og kann því afar vel. Þrátt fyrir unga ævi hefur lífshlaup hennar verið með ólíkindum og hún hefur lagt á sig langt og strangt ferðalag til að koma hingað til lands.

„Ég heiti Najmo Cumar Fiyasko og er fædd í Sómalíu. Þegar ég var 11 ára gömul missti ég pabba minn og þá var ég gefin frænda mínum, sem var miklu eldri en ég, í þvingað hjónaband. Síðan þá hefur líf mitt snúist um að berjast fyrir mínum eigin mannréttindum. Mamma mín gat ekki hjálpað mér því að karlar ráða öllu í Sómalíu. Mamma býr í Mógadisjú. Þegar ég var 13 ára ákvað ég að flýja heimaland mitt til að bjarga mér út úr þessu hjónabandi. Leið mín lá til Súdan, Líbíu og Möltu og þegar ég var 16 ára tókst mér loks að komast hingað til Íslands. Hér hef ég verið síðan.

Þetta hefur verið erfið lífsreynsla fyrir mig, sérstaklega þar sem ég var að berjast gegn ríkjandi menningu í mínu eigin landi. En þvinguð hjónabönd eru bara partur af menningunni og viðurkennd í samfélaginu. Þess vegna varð ég að flýja.

Þó að ég búi á Íslandi er ég enn að berjast fyrir aðrar stelpur í Sómalíu með því að gera myndbönd sem ég birti á samfélagsmiðlum. Ég er að reyna að hvetja þær áfram og segja þeim að ef menningin er slæm verðum við að gera eitthvað í því og taka málin í okkar hendur. Við þurfum að yfirgefa landið og þrýsta á um breytingar í okkar samfélagi. Það er kannski sárt en það er miklu sárara að sjá að þessir hlutir séu enn að gerast. Við þurfum að stoppa þetta og til þess að geta það verðum við að tala um þetta hvar sem við getum og mennta stelpur í Sómalíu. Það er það sem ég er tilbúin til að gera og það er minn draumur – að hjálpa stelpum eins mikið og ég mögulega get þangað til að þetta tekur enda.

Ég bý hjá fósturforeldrum í Reykjavík sem hafa hjálpað mér mjög mikið og mér þykir mjög vænt um og líka litlu fóstursystur mína. Við erum fjölskylda þótt við komum úr ólíkum áttum. Ég er í framhaldsskóla, Fjölbraut í Ármúla, á félagsfræðibraut. Mér líkar mjög vel í skólanum. Ég á mér stóra drauma og til þess að þeir rætist þarf ég að mennta mig,“ segir Najmo og heldur út í vorið full af eldmóði.

Viðtal: Aldís Yngvadóttir