,,Ég vissi ekki að nauðgun væri glæpur”

Dag einn fór Sadia* 12 ára á markaðinn að selja grænmeti. Sadia bjó við mjög mikla fátækt og aðstoðaði glöð móður sína við að sjá þeim mæðgum farborða, en hún bjó ein með móður sinni og þekkti ekki föður sinn. Margir úr þorpinu voru samferða á markaðinn og Sadia fór með. Í lok dags fór hópurinn á undan henni heim á leið án þess að gera sér grein fyrir því að Sadiu vantaði.

Hún var skilin ein eftir á markaðnum. Það var að koma kvöld þannig að hún ákvað að ganga af stað heim. Þegar Sadia var komin hálfa leið kallaði maður á eftir henni og sagði henni að bíða því það væri öruggara að þau myndu vera samferða í þessu myrkri. Sadia ákvað að hlýða og bíða eftir honum en þegar hann var kominn til hennar fór hann að snerta hana á óviðeigandi hátt.

Sadia varð hrædd og öskraði en það heyrði enginn til hennar því það voru ekki fleiri nálægt, þau voru inni í miðjum skógi. Maðurinn nauðgaði henni og hljóp svo í burtu. Sadia kærði manninn ekki. Hún sagðist ekki hafa vitað að nauðgun væri glæpur, hún bætti við að það hefði hvort eð er ekki skipt máli því fátækir geti ekki kært.

Ofbeldið sem Sadia varð fyrir er eitt hörmulegasta form kynbundins ofbeldis – kynferðisofbeldi gegn börnum.

Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er gríðarlega stórt samfélagslegt vandamál í Síerra Leóne þaðan sem Sadia kemur. Barnaverndarkerfi landsins er afar veikt, börn verða fyrir miklu ofbeldi og réttindi þeirra eru síbrotin. Börn upplifa ofbeldi í skóla, af hendi kennara, eldri nemenda auk annars starfsfólks skóla. Níu af hverjum tíu nemendum hafa upplifað einhverja tegund líkamlegs ofbeldis í skólum og tvær af hverjum þremur stúlkum hafa orðið þar fyrir kynferðisofbeldi.

Þar af hefur 18% stúlkna verið nauðgað, oft „í skiptum“ fyrir betri einkunnir. Þá eru 86% stúlkna í landinu umskornar. Sadia varð ófrísk eftir nauðgunina og eignaðist barn einungis 12 ára gömul. Barnið lést stuttu síðar. Stúlkum sem er nauðgað eru gerðar brottrækar úr samfélaginu, sérstaklega ef þær verða þungaðar.

Oft eru stúlkurnar sendar til nauðgarans en 36% stúlkubarna eru giftar fyrir 18 ára aldur og er staða þeirra ein sú versta sem þekkist í heiminum. Börn sem koma undir við nauðgun eru litin hornauga og eiga oft erfitt uppdráttar.

Barnaheill vinna að því í Síerra Leóne, með stuðningi utanríkisráðuneytisins, að draga úr kynbundnu ofbeldi í skólum. Það er gert með því að styðja við og þróa barnaverndarkerfi með sérstaka áherslu á kynbundið og kynferðisofbeldi. Samtökin vinna að því að gera tilkynningaleiðir skýrari og aðgengilegri og fræða þorpshöfðingja, kennara, foreldra og annað fullorðið fólk um umskurð kvenna, barnahjónabönd og þunganir unglingsstúlkna. Barnaheill vinna að þarfagreiningu ásamt börnum, foreldrum, kennurum og samfélaginu öllu þar sem rýnt er í hvar kynbundið ójafnrétti liggur í skólakerfinu.

Auk þess fá stúlkur og drengir margvíslega fræðslu um ofbeldi, þar á meðal um réttindi sín. Foreldrar og kennarar fá þjálfun í jákvæðum uppeldisaðferðum ásamt margvíslegri annarri fræðslu. Barnaheill vinna með öllu samfélaginu að því að draga úr kynbundnu ofbeldi í skólum og rödd barnanna sjálfra skipar mikilvægan sess í þeirri vinnu. Fyrsta skrefið til að útrýma ofbeldi er fræðsla um ofbeldi. Ef stúlkur eins og Sadia vita ekki að nauðgun er glæpur, er erfitt að bregðast við og koma í veg fyrir að nauðgun endurtaki sig.

Sadia veit núna, eftir að hafa tekið þátt í verkefni Barnaheilla gegn kynbundnu ofbeldi, að nauðgun er glæpur og hefur gerst svokallaður „gender champion“ þar sem hún gengur á milli þorpa og fræðir ungar stúlkur um ofbeldi og afleiðingar þess. Saga Sadiu er því miður einungis ein af allt of mörgum sögum stúlkna úti um allan heim sem hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi.

Grein þessi er liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Kynbundið ofbeldi þarf að stöðva strax!

*Sadia er dulnefni stúlku sem er haghafi í verkefni Barnaheilla í Síerra Leóne.