Eitt af hverjum tíu börnun í Jemen hrakið að heiman vegna stríðs og ofbeldis

Daoud* er 15 mánaða drengur sem þjáist af alvarlegri vannæringu. Hér er heilbrigðisstarfsmaður sem s…
Daoud* er 15 mánaða drengur sem þjáist af alvarlegri vannæringu. Hér er heilbrigðisstarfsmaður sem starfar hjá meðferðarteymi Barnaheilla – Save the Children í flóttamannabúðum í Lahi-héraði í Jemen þar sem Daoud hlýtur meðferð að mæla handlegg hans. Ljósmynd: Jonathan Hyams / Save the Children

Í dag sendu Barnaheill – Save the Children frá sér fréttatilkynningu um ástandið í Jemen.

Hálf milljón barna hefur þurft að yfirgefa heimili sín vegna átaka í Hodeidah síðustu sex mánuði.

Að minnsta kosti eitt af hverjum tíu börnum í Jemen (1,5 milljónir) hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna stríðsins sem nú hefur geisað í fjögur ár. Börnin hafa mátt þola hungur, farsóttir og ofbeldi. Síðast liðna sex mánuði hefur yfir hálf millljón barna hrakist að heiman vegna bardaga í Hodeidah héraði samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna. Það eru að meðaltali 2.000 börn á hverjum einasta degi frá því í júní á síðasta ári, og það er eingöngu í Hodeidah þar sem bardagar hafa verið hvað harðastir.

Almennum borgurum sem eru á flótta undan ofbeldinu eru í mikilli áhættu. Þeir eiga á hættu að láta lífið í sprengju- eða skotárásum stríðandi fylkinga sem hafa ekki sinnt lögboðnum skyldum um að vernda almenna borgara.

Þann 23. ágúst í fyrra létust 22 börn og fjórar konur þegar rúta sem þau voru í varð fyrir sprengju í loftárás er þau voru að flýja átökin í Hodeidah. Nýlega létust átta almennir borgarar í miðstöð fyrir fjölskyldur á flótta í Hajjah þegar þeir fengu í sig sprengjubrot í árás. Samkvæmt athugunum ACLED (The Armed Conflict Location & Event Data Project) hafa í það minnsta 25 árásir verið gerðar á flóttafólk á síðari helmingi ársins 2018.

Ef fjölskyldur á flótta lifa af hið hættulega ferðalag og tekst að forðast loft- og skotárásir og komast á öruggan stað mæta þeim frekari erfiðleikar í samfélögum eða búðum sem eru þegar komin að þolmörkum vegna matarskorts og skorts á hreinlætisaðstöðu. Ung börn eiga þá á hættu vannæringu og sjúkdóma. Heilbrigðiskerfið í Jemen er hrunið og 14 milljónir manna eru á barmi hungursneyðar. Barnaheill – Save the Children áætla að 85.000 börn hafi þegar dáið úr hungri síðan 2015.

Tamler Kirolos, yfirmaður Save the Children í Jemen hafði þetta að segja:

„Í mestu hörmungum sem nú geisa í heiminum eru börnin sem eru í hvað mestri hættu þau sem flúið hafa heimili sín vegna átakanna. Þau hafa verið hrakin úr skóla og eiga á hættu að vera misnotuð og beitt ofbeldi. Við höfum heyrt sögur af börnum sem eru að krókna úr kulda á köldu vetrarmánuðunum því þau hafa ekki almennilegt húsnæði og skjól og fjölskyldan hefur ekki efni á eldsneyti til upphitunar. Byggðir sem tekið hafa við flóttafólki eru undir miklu álagi og eiga í erfiðleikum með að taka við þessum fjölda fólks sem flúið hefur til nærliggjandi borga og bæja. Þessi börn hafa verið rænd grundvallarréttindum sínum til lífs, menntunar og heilbrigðis. Þau þurfa stuðning og hjálp núna.“

Börn deyja af ástæðum sem hægt er að fyrirbyggja

„Það er jákvætt að dregið hefur úr átökum eftir að stríðandi fylkingar sömdu um vopnahlé í Hodeidah í síðasta mánuði. En staðan er mjög viðkvæm og höfnin í Hodeidah er enn ekki starfhæf þannig að hægt sé að koma lífsnauðsynlegum hjálpargögnum til milljóna Jemena. Þetta þýðir að börn deyja vegna þess að þau skortir mat og lyf sem eiga ekki greiða leið inn í landið. Lítil sem engin merki eru um að nokkuð hafi breyst fyrir fólkið í Jemen, einkum börn sem líða og þjást.

Alþjóðasamfélagið verður að tryggja að farið sé eftir samkomulaginu sem gert var í Stokkhólmi og taka haldbær skref til að ráðast að rótum vandans og þessara hörmunga sem eru algjörlega af manna völdum og hægt er að fyrirbyggja. Það felur meðal annars í sér að tryggja óhindraðan aðgang að hjálpargögnun og vörum og að ná jafnvægi í efnahagslífi Jemens,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.