Eldur kviknaði í yfirfullum flóttamannabúðum á Lesbos

Eldur kom upp í stærstu flóttamannabúðum Grikklands, sem staðsett er á eyjunni Lesbos, í nótt. Alls búa um 13.000 manns í yfirfullum flóttamannabúðunum sem kallaðar eru Moria, en búðirnar voru byggðar til að hýsa 3.000 manns. 70% flóttafólksins kemur frá Afghanistan.

Fréttir herma að eldurinn hafi kviknað í kjölfar mótmæla sem áttu sér stað í búðunum þegar flóttafólk mótmælti aðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirunnar. Íbúar Moria-búðanna höfðu verið í sóttkví síðustu viku eftir að innflytjandi frá Sómalíu greindist með veiruna en aðrir þrjátíu og fimm höfðu greinst smitaðir í kjölfarið og var öllum íbúum búðanna skipað í sóttkví.

Alls börðust 25 slökkviliðsmenn og 10 bílar við eldsvoðann á meðan flóttafólkið flykktist út úr búðunum. Lögregla afmarkaði vegi til að koma í veg fyrir að flóttafólk myndi streyma til nærliggjandi bæja.

Karen Mets, talsmaður barna á flótta fyrir Barnaheill – Save the Children segir aðstæður í Moira-búðunum hafi farið frá því að vera slæmar í að vera hrikalegar.

,,Eldurinn í Moria-búðunum er hrikalegt áfall. Þúsundir barna hafa verið skilin eftir á götunum, án skjóls og eru í mikilli hættu á að verða fyrir ofbeldi og misnotkun. Fjöldi barna yfirgaf búðirnar án fylgdar og leitar nú í örvæntingu eftir öruggum stað. Þau eru hrædd, svöng og er kalt. Fjöldi fjölskylda hefur misst þær fáu eigur sem þau áttu og eiga nú engan mat og vatn og fá enga vernd."

Mets segir að þessi eldur sé afleiðing ómannúðlegrar stefnu stjórnvalda síðastliðin fimm ár sem hefur skilið tugþúsundir manna eftir við skelfilegar aðstæður í yfirfullum búðunum.

,,Fólk hefur oft ekki haft aðgang að vatni eða öðrum nauðsynjum. Meirihluti þeirra sem býr í Moria kemur frá átakasvæðum í Afghanistan, Sýrlandi og Írak og hefur upplifað ólýsanlegar þjáningar. Fólkið kom til Evrópu í leit að öryggi, en í staðinn endaði það í örbirgð. Barnaheill – Save the Children hafa tekið saman gögn um sjálfskaða og vímuefnaneyslu barna í búðunum sem þau leita í þegar þau missa alla von."
,,Þetta er ekki grískt vandamál. Þetta er evrópskt vandamál. Nú er tími til kominn að aðildarríki Evrópusambandsins stígi fram og komi börnum á flótta í öryggi. Við getum ekki horft upp á börn og fjölskyldur þeirra mæta meiri þjáningum í Evrópu.” segir Karen Mets.

 

Fadil, eins árs, frá Sýrlandi leggur sig

Fjölskylda sem er nýkomin til Grikklands úr löngu ferðalagi