Ellen nýr framkvæmdastjóri Barnaheilla

Ellen Calmon nýr framkvæmdastjóri Barnaheilla
Ellen Calmon nýr framkvæmdastjóri Barnaheilla

Ellen Calmon hefur verið ráðin til að gegna starfi framkvæmdastjóra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Hún tekur við starfinu af Ernu Reynisdóttur, sem hefur stýrt samtökunum sl. 10 ár.

Ellen er með B.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands og diplómu í opinberri stjórnsýslu auk þess sem hún leggur stund á meistaranám á því sviði.

Ellen hefur umfangsmikla reynslu af stjórnun hagsmunasamtaka. Hún gegndi stöðu framkvæmdastýru ADHD samtakanna frá 2011-2013 og aftur 2018 og var formaður Öryrkjabandalags Íslands á árunum 2013-2017. Á árunum 2018-2020 stýrði Ellen innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna og verkefninu Opinskátt um ofbeldi í skóla- og frístundastarfi hjá Reykjavíkurborg. Þá hefur hún einnig haldið fjölmörg námskeið og fyrirlestra um málefni barna og mannréttindi. Undanfarin tvö ár var Ellen borgarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg.

Ellen hefur verið ötul talskona mannréttinda-, jafnréttis- og velferðarmála og hefur talað sérstaklega fyrir réttindum barna og fatlaðs fólks. Hún hefur töluverða reynslu af alþjóðlegu samstarfi og hefur m.a. átt sæti í stjórnum Evrópskra mannréttindasamtaka European Disability Forum og European Womens Lobby.

Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna og réttindi þeirra. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif. Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra. Samtökin eru rekin á frjálsum framlögum fyrir tilstuðlan Heillavina, mánaðarlegra styrktaraðila. Barnaheill eru Heillavinum ævinlega þakklát fyrir stuðninginn. Auk þess sækja samtökin um fjárhagslega styrki í gegnum ráðuneyti og ýmsa samfélagssjóði.

„Ég fagna því innilega að við höfum fengið eins reynda og hæfa manneskju í starf framkvæmdastjóra og Ellen er. Hún hefur áður stýrt hagsmunasamtökum með glæsibrag, hefur brennandi áhuga á málaflokknum sem skín í gegnum hennar fyrri störf og hún hefur mikinn drifkraft. Ellen er með spennandi hugmyndir um hvernig má styrkja stöðu samtakanna enn frekar, börnum til heilla. Ég er viss um að hún verður frábær leiðtogi fyrir Barnaheill“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir, stjórnarformaður Barnaheilla.

„Öll börn þessa heims eiga rétt á að lifa, þroskast og dafna á eigin forsendum og að hugað sé að fjölbreytileika þeirra og styrk. Ég tel vernd og velferð barna eitt mikilvægasta grunnverkefni allra samfélaga sem er einnig aðal tilgangur Barnaheilla. Ég er þakklát og spennt fyrir því að fá að takast á við þau mikilvægu verkefni sem framundan eru hjá Barnaheillum ásamt öflugri stjórn og starfsfólki sem hefur bæði mikla og breiða þekkingu á málefnum barna.“ segir Ellen Calmon, nýr framkvæmdastjóri Barnaheilla.