Ellen tekur við sem ný framkvæmdastýra Barnaheilla eftir reynslumikla ferð til Jórdaníu og Ítalíu

Ellen Calmon hefur tekið formlega við störfum sem ný framkvæmdastýra Barnaheilla. Hún tekur við störfum eftir reynslumikla ferð til Jórdaníu og Ítalíu þar sem hún heimsótti verkefni Barnaheilla – Save the Children þar í landi. Hún meðal annars heimsótti Za’atari flóttamannabúðirnar sem liggja í norðurhluta Jórdaníu við landamæri Sýrlands. Þær eru stærstu flóttamannabúðir í heimi með 81.000 íbúa án ríkisfangs.

,,Heimsóknin á skrifstofu Barnaheila – Save the Children á Ítalíu var mjög lærdómsrík fyrir mig nýja í starfi. Það var mjög áhugavert að kynnast því sem samtökin eru að gera á Ítalíu og öðlast þannig örlitla innsýn inn í hversu stór og megnug Barnaheill - Save the Children samtökin eru,” segir Ellen um reynslu sína af heimsókn sinni.

,,Heimsóknin í flóttamannabúðirnar í Za’atari var bæði ánægjuleg og erfið í senn. Það er erfitt að horfa upp á tugþúsundir fólks, fjölskyldur búa við þessar aðstæður sem eru sannarlega ekki aðstæður frelsis eins og við þekkjum það. Fjölskyldurnar eru hins vegar í nokkuð öruggumaðstæðum í búðunum sem er mest um vert. Ánægjan var hins vegar fólgin í því að sjá hversu mikilvægt starf Barnaheilla í Jórdaníu eru að gera með því að skapa öruggar aðstæður fyrir börnin á Barnvænum svæðum þar sem börnin fá að njóta sín í leik og lærdómi. Þau fá þar næringu, andlega og líkamlega örvun sem er gríðarlega mikilvægt fyrir þroska barna. Það kom mér á óvart hversu starfið var faglegt en öllu fáanlegu er til tjaldað. Leiðbeinendur útbúa kennsluefni og hlúa að svæðinu til að gera það litríkt og hvetjandi þar sem börnin eiga öruggt skjól. Það var yndislegt að sjá hversu hlýtt var á milli barna og leiðbeinenda og að þar ríkti traust. Án starfs Barnaheilla – Save the Children ættu þessi börn ekki slíkt athvarf og nytu ekki þeirrar mikilvægu þroskaörvunar sem barnvænu svæðin bjóða upp á.

Barnaheill – Save the Children í Jórdaníu hafa starfað þar í landi síðan árið 1974 en síðustu ár hafa helstu áherslur samtakanna þar í landi verið á flóttamannastrauminn frá Sýrlandi. Með verkefnum sínum í Jórdaníu umbreytir Barnaheill lífi meira en hálfri milljón barna og fjölskyldum þeirra á hverju ári. Í verkefnum Barnaheilla er helst lögð áhersla á vernd barna gegn ofbeldi, menntun og heilsu.