Er afnám heimahjúkrunar fyrir langveik börn brot á mannréttindum þeirra?

Ungmennaráð Barnaheilla - Save the Children á Íslandi hefur sent ráðherra heilbrigðisráðuneytis og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands áskorun vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á heimahjúkrun fyrir langveik börn.

Ungmennaráð Barnaheilla - Save the Children á Íslandi hefur sent ráðherra heilbrigðisráðuneytis og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands áskorun vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á heimahjúkrun fyrir langveik börn.

„Niðurskurður í þjóðfélaginu er skiljanlega nauðsynlegur á þeim tímum sem nú ríkja, og gerum við í ungmennaráðinu okkur vel grein fyrir því. En ákvörðunartaka sem þessi getur haft afdrifarík áhrif á líf barna sem þurfa ekki einungis að takast á við langvarandi veikindi eða fötlun heldur standa nú einnig frammi fyrir því að geta ekki lengur dvalið heima hjá sér vegna skorts á þjónustu. Þetta teljum við með öllu ólíðandi fyrir viðkomandi börn og fjölskyldur þeirra.

 Í 23.grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var staðfestur fyrir Íslands hönd árið 1992, kemur eftirfarandi fram:
„Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það.“

Þar sem heimahjúkrun langveikra eða fatlaðra barna er nauðsynleg öllum þeim er hana þiggja, hefur niðurskurður þessarar þjónustu í för með sér skerðingu á lífsgæðum þessara barna. Það er okkar von að þeir aðilar sem stóðu að ákvörðun þessari, leiðrétti þau mistök sem gerð hafa verið og komi í veg fyrir þær slæmu afleiðingar sem hún getur haft á líf langveikra og fatlaðra barna á Íslandi.

Fyrir hönd ungmennaráðs Barnaheilla,
María Gyða Pétursdóttir
Kristrún Halla Gylfadóttir
Eva Brá Axelsdóttir
Edda Kristjánsdóttir.“