Eru börn dregin í dilka vegna fátæktar

Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum - Save the Children á Íslandi skrifar í Fréttablaðið um fátækt: „Þarna var stéttaskiptingin algjör. Þarna var búið að skipuleggja framtíðina fyrir börnin og ég var oft eins og illa klemmdur hlutur á milli stétta, komin af óregluheimili og átti stundum ekki fyrir nesti í skólann en samt í besta bekk með yfirstéttarbörnum.“

„Þarna var stéttaskiptingin algjör. Þarna var búið að skipuleggja framtíðina fyrir börnin og ég var oft eins og illa klemmdur hlutur á milli stétta, komin af óregluheimili og átti stundum ekki fyrir nesti í skólann en samt í besta bekk með yfirstéttarbörnum.“

Þannig skrifar Anna Kristjánsdóttir í bloggfærslu 7. mars um veru sína í Laugarnesskóla árið 1963. Á þessum árum voru nemendur flokkaðir í bekki eftir námsgetu eða námsárangri, sem gjarnan fór saman við bakgrunn nemenda og þann stuðning og aðstæður sem þeir bjuggu við. Stéttaskipting og flokkun barna var augljós og þótti jafnvel eðlileg á þeim tíma. Þau börn sem bjuggu við erfiðar aðstæður og fátækt voru berskjaldaðri fyrir ofbeldi og urðu gjarnan fórnarlömb ofbeldismanna, eins og dæmin sanna.

Nú er árið 2014 og mikið vatn hefur runnið til sjávar hvað varðar réttindi barna og viðhorf til þeirra. Rúmum 25 árum eftir veru Önnu í Laugarnesskóla var Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna undirritaður af flestum þjóðum heims þann 20. nóvember 1989. Samningurinn hefur verið lögfestur á Íslandi og er það mikil réttarbót fyrir börn.

Í Barnasáttmálanum er kveðið á um öll þau réttindi sem börn eiga að njóta og ekki má mismuna börnum eftir stöðu þeirra eða stöðu eða athöfnum foreldra þeirra. Börn eiga rétt á að lifa og þroskast og fá að þroska hæfileika sína. Þau eiga rétt á umönnun og vernd, menntun, heilsugæslu, hvíld og tómstundum.

Það er mikið framfaraspor að til skuli vera sáttmáli sem á að tryggja börnum mannsæmandi líf og þroskavænleg lífsskilyrði.

Sorglegur raunveruleiki
En það þýðir því miður ekki að stéttaskipting barna sé ekki lengur til staðar á Íslandi. Það eru enn börn sem ekki eiga fyrir nesti í skólann. Staðreyndin er sú að árið 2014 er þetta sorglegur raunveruleiki of margra barna. Sökum fátæktar fá þessi börn ekki að njóta grundvallarmannréttinda.

Börn sem búa við fátækt eiga oft erfitt með að fylgja skólafélögum sínum eftir í tómstundastarfi, eða taka þátt í leikjum eða skemmtunum. Þau geta jafnvel ekki haldið upp á viðburði og áfanga í lífi sínu eins og afmæli eða farið í afmæli hjá öðrum. Þau geta því ekki tekið virkan þátt í samfélaginu með öðrum börnum. Þau fara á mis við að kynnast því fjölbreytta samfélagi menningar, íþrótta og lista, sem gæti vakið áhuga þeirra, göfgað líf og styrkt sjálfsmynd. Þau fá ekki að nýta hæfileika sín