Fátækt barna fer vaxandi. Hvorki stefna né áætlun um að uppræta fátækt á Íslandi

Um 10.000 börn eða 13,1% barna búa við fátækt á Íslandi samanborið við 12,7% árið á undan. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla – Save the Children sem kom út í dag, þriðjudaginn 7. mars og tóku Barnaheill á Íslandi þátt í gerð þeirrar skýrslu. Árið 2015 samþykktu stjórnvöld á Íslandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þar með að minnka fátækt um helming í landinu fyrir árið 2030. Engar áætlanir hafa verið gerðar um það né stefna mörkuð. Tíminn styttist og því mikilvægt að hraða áætlunum og aðgerðum. Barnaheill leggja áherslu á að uppræta þurfi fátækt með öllu meðal barna því að eitt barn sem elst upp við fátækt á Íslandi er einu barni of mikið.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að árið 2021 áttu 24,1% íslenskra heimila í erfiðleikum með að standa straum af daglegum útgjöldum og ná endum saman. Í rúmlega helmingi tilfella voru það heimili einstæðra foreldra og 16,1% voru heimili tveggja eða fleiri fullorðinna með börn. Meiri líkur eru að börn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins búi við fátækt eða um 15,8% þeirra. Að auki eru fram undan miklar áskoranir í kjölfar covid heimsfaraldurs, vegna stríðs í Úkraínu og vegna loftslagsbreytinga sem okkur ber að takast á við.

Verðbólga á Íslandi hefur meira en tvöfaldast á milli ára, úr 4,3% í byrjun árs 2022 í rúmlega 10% í lok febrúar árið 2023. Verðbólga og hækkun vaxta hefur aukið greiðslubyrði fjölskyldna af húsnæðislánum, leiguverð hefur hækkað og allur framfærslukostnaður. Eitt af hverjum fimm börnum sem búa í leiguhúsnæði eiga á hættu að búa við fátækt og 8,2% þeirra búa við skort.

,,Stjórnvöld þurfa að setja sér stefnu og aðgerðaáætlun til þess að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi,

segir Margrét Júlía, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum. ,,Sú stefna og áætlun þarf að tryggja öllum börnum á Íslandi jöfn tækifæri til menntunar, heilsu, verndar og þátttöku. Fátækt er brot á mannréttindum barna og ber okkur samfélagsleg skylda til að tryggja að ekkert barn sé utangarðs vegna fátæktar,” segir Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum. Því hafa Barnaheill sett af stað undirskriftarsöfnun sem verður afhent forsætisráðherra.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi skora á íslensk stjórnvöld að:

Gera landsstefnu og aðgerðaáætlun til að uppræta fátækt á Íslandi fyrir árið 2030. Sú stefna og áætlun þarf að tryggja öllum börnum á Íslandi jöfn tækifæri til heilsu, menntunar, verndar og þátttöku. Því þarf að:

  • Bjóða upp á fjárhagslega öruggt húsnæði fyrir lágtekjufjölskyldur
  • Auka barnabætur og byggja þær á framfærsluviðmiðum
  • Tryggja gjaldfrjálsa menntun til 18 ára aldurs, þar með talið námsgögn. Takast þarf á við mikið brottfall úr framhaldsskólum með áhrifaríkum og raunhæfum leiðum
  • Tryggja öllum börnum næringarríka máltíð í skólum og gjaldfrjálsa með öllu fyrir þau börn sem búa við fátækt og/eða skort
  • Efla menntun og kjör kennara á öllum skólastigum, sérstaklega á leikskólastigi
  • Efla geðheilsu barna með gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu á sviði félagslegra og geðrænna veikinda
  • Draga úr kostnaði við þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi, þ.m.t. ferðalögum og búnaði.

Stjórnvöld þurfa þar að auki að gera áætlanir um forvarnir og viðbrögð við samfélagslegum áskorunum svo sem vegna heimsfaraldurs eða loftslagsbreytinga og þá sérstaklega hvaða áhrif það hefur á börn.

Lestu skýrsluna hér