Fátækt barna í löndum velsældar

Skýrsla Barnaheilla – Save the Children á Norðurlöndum um fátækt meðal barna er komin út

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa um árabil vakið athygli á málefnum barna sem búa við fátækt og þrýst á stjórnvöld að útrýma fátækt meðal barna á Íslandi. Í samstarfi við önnur Barnaheill - Save the Children samtök í Evrópu hafa samtökin unnið fjölda skýrslna um málefnið og þar með vakið athygli á því að óásættanlegt er að börn búi við fátækt, enda ber að tryggja börnum þau réttindi sem þau eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fátækt kemur í veg fyrir að börn njóti þeirra réttinda.

Barnaheill – Save the Children í Evrópu hafa reglulega gefið út skýrslur þar sem greint er frá stöðunni í Evrópu og bent á leiðir til úrbóta. Í mars á þessu ári kom út skýrslan Guaranteeing Childrens’s future - How covid 19, cost of living and climate crises affect children living in poverty and what goverments in Europe need to do.

Í skýrslunni kom fram að 13,1 % barna á Íslandi eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun eða alast upp við fátækt, sem er aukning frá síðustu mælingum, sem mældu 12,7% barna. Eftir útkomu skýrslunnar söfnuðu Barnaheill undirskriftum meðal almennings á Íslandi þar sem þrýst var á stjórnvöld að setja sér stefnu um að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi. Undirkriftirnar voru afhentar Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Alþingishúsinu þann 12. maí. Ráðherra áætlaði að leggja málefnið fyrir á næsta ríkisstjórnarfundi. Talsmenn barna á alþingi voru einnig viðstaddir afhendingu undirskriftanna.

Jafnvel þó að Ísland komi vel út í samanburði við flest Evrópulönd hvað varðar fátækt meðal barna er algjörlega óásættanlegt að börn þurfi að búa við fátækt. Barn sem býr við fátækt er svift tækifærum og möguleikum á innihaldsríku lífi.

Ísland og önnur ríki Norðurlanda eru þau ríki í Evrópu sem geta státað af hve mestri velmegun en samt er ekkert þeirra laust við fátækt á meðal barna. Öll ríki Norðurlanda hafa undirritað Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (SDG) og þar með skuldbundið sig til að minnka fátækt til muna og uppræta sárafátækt fyrir árið 2030. Þróunin víða er þó í öfuga átt og fjöldi barna sem býr á lágtekju heimilum hefur aukist. Þrátt fyrir alls kyns stefnur og áætlanir sem ríkin hafa sett sér er langt í land með að snúa þróuninni við.

Barnaheill – Save the Children á Norðurlöndum hafa nú tekið höndum saman um skoða málefni barna sem búa við fátækt í hinum norrænu ríkjum og bera saman stöðuna í ríkjunum. Niðurstöður má finna í nýútkominni skýrslu samtakanna; Family poverty in the Nordic countries.

Í skýrslunni kemur fram að á Norðurlöndum alast 719.500 börn upp á lágtekju heimilum.

Rúmlega 11% barna í Noregi alast upp við fátækt, um 12% í Finnlandi, 13,1% á Íslandi og 19% í Svíþjóð. Í Danmörku  búa 5% bara við fátækt en þar miðast mælingar við 50% af meðaltekjum meðan viðmiðið er 60% í hinum löndunum. Samanburðurinn er því ekki alveg marktækur.

Vegna fátæktar líða börnin fyrir skort á tækifærum til menntunar, njóta síður heilbrigðisþjónustu og næringaríkrar fæðu, búa við ótryggar og jafnvel heilsuspillandi húsnæðisaðstæður og umhverfi, stunda síður tómstundir og njóta síður stuðnings og verndar gegn ofbeldi. Fátækt er fjölþættur vandi og að alast upp við fátækt getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir börn og í raun ein helsta ástæða þess að börn njóta ekki réttinda sinna. Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að búa við fátækt sem fullorðnir einstaklingar, fátækt flyst á milli kynslóða og skapar samfélag mismununar og óréttlætis. Fátækt snýst því um mun fleira en skort á fjármunum og stjórnvöld í hverju landi bera megin ábyrgð á að koma í veg fyrir fátækt.

Börn sem rætt var við, við gerð skýrslunnar segjast einmana, útilokuð og vinalaus því þau geti ekki leyft sér sams konar líf og jafnaldrar þeirra. Þau reyni þó að fela stöðuna fyrir jafnöldrunum, en segja að fátækt ræni þau vonum, draumum og réttindum.

Fyrst og fremst þarf pólitískan vilja ef uppræta á fátækt, stefnu og mælistikur. Það er ekki síst gert með stuðningi og uppbyggingu innviða sem stuðla að jöfnuði og jafnræði.

Með vilja og áætlunum gæti hlutfall barna sem búa við fátækt á Íslandi árið 2030 verið um 8% sem er þróun í rétta átt. Þó munu enn árið 2030 vera börn á Íslandi sem búa við fátækt og fá þar með ekki notið þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Erum við sátt við það sem samfélag og þjóð?