Fjármagn til barnaverndar ekki í samræmi við sívaxandi þörf

Fjármagni sem veitt er til að vernda börn í heiminum er ekki í samræmi við sívaxandi þörf, en aldrei hafa fleiri börn þurft á barnavernd að halda. Það kemur fram í skýrslunni, The Unprotected: Annual spotlight on child protection funding in humanitarian actions, sem nokkur leiðandi mannréttindasamtök í heiminum gáfu út í dag. Árið 2019 náðist eingöngu að fjármagna 42% af þeirri upphæð sem nauðsynleg var til að veita börnum vernd í heiminum en árið 2020 lækkaði þetta hlutfall niður í 24%. Afleiðingar þess að geta ekki fjármagnað nema brot af þeirri þörf sem er til staðar er að milljónir barna verða fyrir barðinu á átökum og hamförum án nokkurrar verndar.

Þrátt fyrir að fjárframlög til barnaverndar hafa aukist á undanförnum árum, úr 18,5 milljörðum króna árið 2018, 20 milljarða árið 2019 og í 22 milljarða árið 2020 þá er stórfelld fjölgun barna í neyð. Upphæðir til barnaverndar voru eingöngu 0,8% af heildarfjármagni til mannúðaraðstoðar árið 2020.

Mannréttindasamtök veita barnaverndarþjónustu í neyðartilvikum, þar á meðal þegar um átök og náttúruhamfarir er að ræða þegar stjórnvöld í viðkomandi landi hafa ekki bolmagn til þess. Sú vinna felur í sér meðal annars að aðstoða börn sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar og sameina þær á ný, auk þess að veita geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn sem finna fyrir alvarlegri vanlíðan og veita mikilvæga þjónustu og stuðning til barna sem verða fyrir ofbeldi.

Skýrslan er sú þriðja sem gefin er út og fjallar um hvernig fjármagni sem ætlað er til verndar á börnum á alþjóða vísu er varið. Skýrslan var unnin af alþjóðasamtökum Barnaheilla – Save the Children fyrir hönd The Alliance for Child Protection in Humanitarian Action, the Global Child Protection Area of Responsibility og UNHCR.

Amanda Brydon, yfirmaður alþjóðlegrar hagsmunagæslu og barnaverndarstefnu alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children, segir mikilvægt að bregðast við og koma í veg fyrir brot á mannréttindum barna.

Við vinnum á erfiðustu svæðum heimsins, þar sem vel þjálfað fólk hefur sýnt að með björgunarúrræðum getum við veitt börnum í neyð vernd. Við vinnum með samfélaginu í heild til að gera börn öruggari.
Þessi skýrsla er tímabær vakning fyrir leiðtoga heimsins að grípa til aðgerða strax og þannig koma í veg fyrir brot á réttindum barna. Mikilvægt er að veita börnum vernd, og þar að auki að veita þeim geðheilbrigðisaðstoð og sálrænan stuðning og stuðla að sameiningu fjölskyldna, bata og enduraðlögun.

Samtök mannréttindasamtaka skora á styrktaraðila að efla fjármögnun til barnaverndarstarfs til samræmis við hlutfallið af heildarfjármagni sem veitt er til hjálparstarfs. Í skýrslunni eru þeir sem veita mannúðaraðstoð einnig hvattir til að forgangsraða starfsemi sinni í þágu barnaverndar þegar kemur að beiðnum til fjármögnunar og mannúðarákalli og einblína á þann skort sem er til staðar á fjármögnun til verndar barna.

 

 

 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.

Þú getur stutt við starf Barnaheilla með því að ýta á myndina hér til hliðar