Fjölskyldan saman með börnin í fókus.

Sumarverkefni SAMAN-hópsins 2007, sem Barnaheill er þátttakandi í, var kynnt í Kársnesskóla þriðjudaginn 5. júní síðastliðinn, undir yfirskriftinni: Fjölskyldan saman með börnin í fókus, sýnum umhyggju í verki. Heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, ýtti verkefninu úr höfn að viðstöddum gestum.Sumarverkefni SAMAN-hópsins 2007, sem Barnaheill er þátttakandi í, var kynnt í Kársnesskóla þriðjudaginn 5. júní síðastliðinn, undir yfirskriftinni: Fjölskyldan saman með börnin í fókus, sýnum umhyggju í verki. Heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, ýtti verkefninu úr höfn að viðstöddum gestum.


Skilaboðin Fjölskyldan saman með börnin í fókus undirstrika mikilvægi samverustunda fjölskyldunnar fyrir þroska og velferð barna. Ýmsar kannanir sýna að börn og unglingar vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum heldur en þau eiga kost á í dag. Sumarið er tími tækifæra fyrir fjölskylduna að verja meiri tíma saman og safna góðum minningum.

Í sumar er SAMAN-hópurinn með eftirfarandi hvatningarorð til foreldra
· Vitum hvar börnin okkar eru og með hverjum
· Virðum útivistartímann
· Kaupum ekki áfengi fyrir yngri en 20 ára
· Setjum tímamörk á tölvunotkun
· Leyfum ekki eftirlitslaus partý eða útilegur

Skilaboðum sumarsins verður dreift á póstkorti á öll heimili á landinu á næstu dögum. Enn fremur munu plaköt hanga uppi á áberandi stöðum um allt land. Auglýsingar í prentmiðlum og ljósvakamiðlum munu svo birtast reglulega í allt sumar.

SAMAN - hópurinn hóf störf síðla árs 1999 en hann er samstarfsvettvangur fulltrúa frá ýmsum stofnunum ríkis og sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka sem láta sig varða velferð barna og ungmenna.

Markmið hópsins er að styrkja og styðja foreldra í uppeldishlutverkinu. Með jákvæðum skilaboðum er athyglinni beint að ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna og hvatt til samveru og jákvæðra samskipta fjölskyldunnar.

Þess má geta að SAMAN-hópurinn hlaut íslensku lýðheilsuverðlaunin 2007. 

Sjá frekari umfjöllun á http://www.samanhopurinn.is/