Fögnum enn einu skrefi í átt að ókeypis tannlækningum fyrir börn

Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna því að sjá árangur af einu helsta baráttumáli samtakanna síðustu misseri. Í gær tók gildi liður í samningi á milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga Íslands sem tryggir þriggja ára og 12-14 ára börnum ókeypis tannlækningum. 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna því að frá og með gærdeginum séu íslensk börn einu skrefinu nær ókeypis tannlæknisþjónustu. Þá tók gildi liður í samningi á milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga Íslands sem tryggir þriggja ára og 12-14 ára börnum tannlækningar án endurgjalds, ef ekki er talið með 2.500 króna komugjald á ári hverju.

Í samningnum er stefnt að því að öll börn verði skráð hjá heimlistannlækni sem kalli barn í eftirlit og viðhald og sjái um forvarnir að minnsta kosti annað hvert ár.

„Við fögnum enn einu skrefinu í átt að ókeypis tannlækningum fyrir börn. Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur að sjá að réttur barna til heilbrigðra tanna sé að verða að veruleika með þessum hætti. Ekki síst þar sem um er að ræða eitt helsta baráttumál samtakanna síðustu misserin,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Samningurinn tók gildi 15. maí þegar börnum 15-17 ára og börnum sem búa við félagslega erfiðar aðstæður var tryggður réttur til ókeypis tannlæjknisþjónustu. Þann 1. janúar næstkomandi bætast 10-11 ára börn í hópinn, í upphafi árs 2015 bætast 8-9 ára við, 6-7 ára í janúar 2016 og 4-5 ára á sama tíma árið 2017. Börn undir 3ja ára aldri eru síðasti hópurinn sem tryggður er þessi réttur, en það gerist 1. janúar 2018. Samningurinn gildir til 30. apríl 2019.


Nauðsynlegt er að foreldrar- eða forráðamenn skrá börn sín í Réttindagátt. Þar er hægt að velja tannlækni af lista yfir þá tannlækna sem eru aðilar að samningnum.