Forseti Íslands er verndari Vináttu

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur þegið boð Barnaheilla um að gerast verndari Vináttu, forvarnar- verkefnis Barnaheilla gegn einelti í leik- og grunnskólum. Guðni á tvö börn sem eru þátttakendur í verkefninu á leikskólanum Holtakoti á Álftanesi sem hefur innleitt Vináttu.

Ég hitti forsetahjónin Guðna og Elizu Reid, á Bessastöðum.Við ákveðum að spjalla saman í bókhlöðunni inn af Bessastaðastofu og Helga, starfsmaður á Bessastöðum, býður okkur kaffi, en forsetinn fær sér sódavatn og við Eliza klassískt íslenskt kranavatn.
Við hefjum viðtalið á að tala um ástæðu þess að Guðni tók að sér hlutverk verndara Vináttu.
„Mér finnst sjálfsagt að leggja svona góðu verkefni lið og langar að vitna í lokaorðin í einu ljóða Tómasar Guðmundssonar, um að það dugi ekki að sitja hjá: „Því meðan til er böl sem bætt þú gast,og barist var á meðan hjá þú sast,er ólán heimsins einnig þér að kenna.“
Ég veit að Barnaheill hafa unnið gott starf í þágu barna og Vin- átta er mikilvægt verkefni. Kannski stendur þetta okkur Elizu líka dálítið nær en öðrum í svipaðri stöðu af því við erum með börn á leikskóla- og skólaaldri. Við tölum daglega við þau um lífið og starfið í skólunum og erum enn að hjóla, sækja og skutla og fara á foreldrafundi. Svo við erum í góðum tengslum við þennan heim.“


Guðni og Eliza eiga fjögur börn, Eddu Mar- gréti Reid, 3 ára, Sæþór Peter, 5 ára, Donald Gunnar, 7 ára, og Duncan Tind, 9 ára. Fyrir átti Guðni Rut, sem verður 23 ára á árinu. Edda Margrét og Sæþór Peter þekkja Vináttuverkefnið vel. Þau voru í Leikskóla Seltjarnarness sem hefur verið þátttakandi verkefninu frá upphafi og var einn tilrauna- leikskóla Vináttu árið 2014-15. Á Holtakoti fylgir Blær þeim áfram, því þar hefur Vinátta einnig verið innleidd.


Guðni: „Það jákvæða við þetta verkefni er að það er ekki lengur verkefni í huga barnanna. Þetta er bara hluti af því að vera í leikskóla og það er orðið þeim eðlislægt að þessi gildi séu höfð í heiðri.“
Forsetahjónin þekkja bæði til eineltismála úr æsku sinni. Eliza lenti í stríðni þegar hún flutti sem barn í Kanada og fór í annan skóla; „Mér var stundum strítt því ég var öðruvísi. Þetta var í 5. bekk og þá eru krakkar á viðkvæmum aldri. Þá voru líka aðrir tímar og ekki eins mikið talað um þessa hluti.“

 

 

 


Guðni varð hins vegar ekki sjálfur fyrir stríðni. Mamma hans var kennari, honum gekk vel í skólanum, var í íþróttum og því ekki líklegur til að verða fyrir einelti; „En ég man eftir svæsnu einelti í skólanum og það var lítið tekið á svoleiðis hlutum í þá daga. Því miður vorum við líka of mörg sem þökkuðum bara fyrir að verða ekki fyrir því, þótt við tækjum ekki þátt. Ég man þó eftir einum strák sem sýndi gott fordæmi. Hann var mikill töffari, frábær í íþróttum, vinsæll og glæsilegur á alla lund en átti vin sem var þybbinn, gekk ekki vel í skólanum og því augljóst skotmark. Þessi strákur sagði við krakkana; „Hér er vinur minn og það snertir hann enginn, hann verður látinn í friði.” Þarna tók þessi flotti strákur bara af skarið og sýndi hugrekki. Þannig þurfum við að vinna saman. Ekki bara þakka okkar sæla fyrir að lenda ekki í stríðni og einelti.“
Munur á einelti og stríðni


Guðni telur mikilvægt að gera greinarmun á einelti og stríðni. Góðlátlegt grín eða stríðni geti verið eðlilegur hluti af samskiptum; „Maður verður að geta gert grín að sjálfum sér og maður verður að mega stríða öðrum pínulítið, en maður þarf að passa hvar mörk- in liggja. Fólk er mismunandi móttækilegt og það sem byrjar kannski sem saklaus stríðni getur endað sem vont einelti. Þeir sem hins vegar hafa nægilegt sjálfstraust og sjálfsör- yggi geta tekið góðlátlegu gamni, en hætta líka að henda gaman að öðrum um leið og þeir finna að því er ekki vel tekið.“

 


„Krakkar eru stöðugt að þroskast og læra á lífið og það eflir í sjálfu sér sjálfstraust að geta gert góðlátlegt grín að sjálfum sér,“ segir Guðni; „Þannig læra krakkar líka að finna muninn á því að gantast í öðrum og því sem verður ljótt og leiðinlegt. Þetta er sífellt lærdómsferli og þar skipta kennarar og leikskólakennarar miklu máli. Þess vegna er verkefni eins og Vinátta svo mikilvægt. Það undirstrikar umhyggju, vináttu, umburðarlyndi og hugrekki. Að þora að segja stopp og þá þarf líka hugrekki til að fallast á það; ... Já, nú ætla ég að hætta þessu. Þannig að hugrekkið virkar á báða bóga.“ 

 


Í foreldrahlutverkinu finnst Elizu þetta líka snúast um þá virðingu sem foreldrar sýni hvort öðru; „Börnin fylgjast svo vel með því sem við segjum, þótt við séum ekki að tala beint við þau. Það er í góðu lagi að sýna þeim að við stríðum hvort öðru stundum og það má. En við tölum aldrei illa um annað fólk. Við grípum hins vegar tækifærið ef við sjáum eitthvað í sjónvarpinu og ræðum við þau af hverju fólk segir suma hluti.“


Samtalið berst að nýbúum og börnum sem eru af erlendu bergi brotin.Telur Eliza að Vinátta skipti máli fyrir þennan hóp barna?
„Vinátta skiptir máli fyrir alla sem eru meira viðkvæmir fyrir að verða fórnarlömb stríðni eða eineltis, hvort sem það eru útlendingar eða ekki,” segir hún og Guðni bætir við að það skipti máli að kenna krökkum að vinna saman á jákvæðan hátt; „Það gildir í þessu eins og svo mörgu öðru að sú vinna og það fé sem er lagt í forvarnir af hvers kyns tagi skilar sér margfalt til baka.“
„Það er varla hægt að undirstrika um of mikilvægi þess að taka á einelti strax í leikskólum og í skólum, því við vitum hversu djúp sár einelti getur orsakað og hversu erfitt það getur verið fyrir fólk að takast á við það. Því miður eru mörg dæmi um að fólk hafi skaðast fyrir lífstíð eftir að hafa lent í einelti. Og það segir sig sjálft að það skiptir máli að vera vinir, vera hugrökk, sýna umhyggju og umburðarlyndi. Þannig búum við til betra samfélag,“ segir forsetinn að lokum.
Sigríður Guðlaugsdóttir tók viðtalið við forsetahjónin, en það var birt í Blaði Barnaheilla 2017