Fræðsla fyrir for­eldra og að­stand­endur barna sem orðið hafa fyrir kyn­ferðis­of­beldi

Höfundur er Sigríður Björnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.
Höfundur er Sigríður Björnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.

Foreldrar verða fyrir miklu áfalli þegar í ljós kemur að barn þeirra hefur verið beitt kynferðisofbeldi og hefur mögulega þagað yfir því í marga mánuði, jafnvel ár. Því er stuðningur við foreldra mikilvægur eftir slíkt áfall. Erfiðar tilfinningar eins og sorg, reiði og ótti eru tilfinningar sem algengt er að foreldrar upplifa ásamt skömm og að vita ekki hvernig eigi að bregðast við. Oft er álagið það mikið að foreldrar missa tökin og þurfa stuðning til að sinna öðrum börnum á heimilinu sem og til að sinna sjálfum sér. Eins eru sumir foreldrar að jafna sig eftir erfið áföll eins og sundrung innan fjölskyldu.

Ráðgjöf fyrir foreldra og aðstandendur er mikilvægur þáttur í líðan og velferð barna þar sem viðbrögð foreldra við ofbeldinu hefur áhrif á úrvinnslu og meðferð barnsins. Með faglegum upplýsingum og fræðslu verða foreldrar betur í stakk búnir til að ræða um ofbeldið þegar þess er þörf og styðja við börn sín. Styðjandi foreldrar/aðstandendur sem hlusta á og trúa barninu stuðlar að mestum bata hjá börnum og unglingum, auk þess sem sjálfsmat og persónuleiki barnsins og að geta talað við hlutlausan aðila um ofbeldið skiptir miklu máli.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi bjóða upp á fræðslu fyrir foreldra og aðstandendur sem eiga eða hafa átt börn og/eða ungmenni sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi. Hvert námskeið er haldið tvisvar í mánuði og tekur tvær klukkustundir í senn. Námskeiðið er öllum að kostnaðarlausu.

Efni fræðslunnar snýst m.a. um afleiðingar kynferðisofbeldis, hlutverk foreldra og aðstandenda, upplýsingar til annarra, tilfinningar foreldra og áframhaldandi stuðningur.
Fræðslan er undir handleiðslu sálfræðinga.

Markmið fræðslunnar er að gefa fólki í svipuðum sporum vettvang til að hittast og ræða saman með stuðningi og leiðsögn. Á námskeiðinu er farið yfir þær erfiðu tilfinningar sem foreldrar fara í gegnum. Einnig er fengist við sjálfsmynd foreldra og hún efld. Foreldrum eru veittar upplýsingar sem þeir þurfa varðandi úrræði fyrir barn sem hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Leitast er við að mæta hverjum og einum á einstaklingsmiðaðan hátt. Þótt allir séu að takast á við sama vandann eru einstaklingar ólíkir og með ólíkar þarfir.

Grein birtist á Fréttablaðinu  þann 4. febrúar 2022