Gefum börnum tæki­færi til lífs án fá­tæktar

Nú þegar aðventan er hafin og jólin nálgast eykst gjarnan samkennd okkar og umhyggja í garð náungans. Fjölskyldur og vinir safnast saman og eiga notalegar stundir, fólk sækir viðburði og velur af kostgæfni gjafir fyrir sína nánustu. Margir styrkja góð málefni og gefa jafnvel auka gjafir til samtaka sem koma þeim svo þangað sem þeirra er þörf. Við hugsum sérstaklega um börnin okkar, því jólin er jú hátíð barnanna.

En eiga öll börn gleðilega aðventu og jól? Hafa öll börn á Íslandi jafna ástæðu til að hlakka til? Því miður er það ekki svo. Hjá sumum þeirra vekur þessi tími kvíða og vanlíðan. Aðstæður barna eru mismunandi og sum búa við óöryggi og erfiðar aðstæður heima við. Þessi börn njóta þar með ekki þeirra mannréttina sem þau eiga rétt á samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Tæp 13% barna á Íslandi eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun og Þeim börnum er mismunað vegna efnahagslegrar eða félagslegrar stöðu foreldra sinna og er það algjörlega óásættanlegt.

En í hverju felst þessi mismunun? Hvar eru þessi börn og hvað þarf að gera til að tryggja þeim þau réttindi sem þeim ber? Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa frá árinu 2013 beitt sér í málefnum barna sem eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun, meðal annars með þátttöku í Evrópuhópi Save the Children um fátækt og félagslega einangrun meðal barna í Evrópu. Í nýrri skýrslu Evrópuhópsins, Guaranteeing Children's Futre: Ending Child Poverty and Soical Exclusion in Eyurope eru skilaboðin eftirfarandi: Tryggjum að ekkert barn í Evrópu þurfi að búa við fátækt. Í skýrslunni er þátttaka barna í leikskólum og í tómstundum skoðuð auk þess sem kannaðar eru skólamáltíðir og næring barna, heilsugæsla og húsnæðismál. Þá er tekin út sú þjónusta sem börnum stendur til boða og kostnaður fjölskyldna við þá þjónustu, auk þess sem reynt er að skoða áhrif Covid-19 faraldursins á velferð barna.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru ákveðnir hópar barnafjölskyldna sérstaklega viðkvæmir fyrir fátækt og félagslegri einangrun. Það eru barnafjölskyldur með lágar tekjur, fjölskyldur með fötluð börn, á flótta, einstæðir foreldrar, foreldrar á örorkubótum og barnafjölskyldur sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Þess má geta að 90% foreldra sem eru á örorkubótum á Íslandi segja bæturnar ófullnægjandi, 80% geta ekki mætt óvæntum útgjöldum, 22% geta ekki greitt skólamat fyrir börn sín og 19% geta ekki greitt fyrir frístund eða tómstundir barna sinna.

Menntun og tækifæri

Þó flest börn hér á landi eru í leikskólum frá 2ja ára aldri komast eingöngu um helmingur þeirra þangað fyrir þann aldur. Brúa þarf bilið á milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu. Jöfn tækifæri til menntunar er grundvöllur jöfnuðar og félagslegs réttlætis. Því er mikilvægt að hvert barn fái þjónustu stuðning við hæfi innan skólakerfisins. Því er þó ekki alltaf til að dreifa og biðlistar langir eftir sérstækri aðstoð. Greiða þarf fyrir ýmsa sérfræðiaðstoð sem sótt er um ef úrræði innan skólanna duga ekki til. Slíkt er ekki á færi allra foreldra og skapar því mikinn aðstöðumun barna. Grunnskólinn á að vera gjaldfrjáls, en þar er þó ýmiss kostnaður, svo sem við frístund, viðburði á vegum foreldraféalga svo og skólamáltíðir. Víða Í Evrópu er mikil vitundarvakning þess efnis að tryggja öllum börnum næringarríka fæðu allt árið um kring og að skólamáltíðir séu gjaldfrjálsar, að minnsta kosti fyrir börn í viðkvæmri stöðu.

Tómstundir og tækifæri

Tómstundir eru öllum börnum mikilvægar á þeirra þroskabraut. Svo mikilvægar að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um réttindi allra barna til tómastunda, íþrótta og þátttöku í listum og menningarstarfi. Slík þátttaka er menntun. Í tómstundum finna börn gjarnan áhugasvið sín og hæfileika sem þau svo rækta, þau kynnast menningu og listum, efla með sér samkennd og samvinnu og eru hluti af þeirri heild sem hópurinn eða félagsskapurinn er. Tómstundastarf á unga aldri fylgir einstaklingnum gjarnan út í lífið og jafnvel ævina á enda. Þó ekki öllum börnum, ekki hafa öll börn sömu tækifæri. . Víðast hvar er mikill ójöfnuður þegar kemur að þátttöku barna í íþróttum, tómstundum og menningu

Ýmis ljón eru í veginum sem þarf að fjarlægja. Þar má nefna búsetu, fötlun, efnahag og félagslegar aðstæður.

Heilsa og húsnæði

Á Íslandi er grunnheilbrigðisþjónusta, heilsugæsla og tannlækningar börnum að mestu gjaldfrjáls og mikilvægt að tryggja að svo verði áfram. Hins vegar eru tannréttingar mjög kostnaðarsamar og ekki á allra færi að greiða slíkt fyrir börn sín. Ekkert barn velur að þurfa á tannréttingum að halda. Geðheilbrigðisþjónusta við börn er ekki nægjanleg og mikill kostnaður getur fylgt því að leita eftir þjónustu sem ekki fæst í hinu opinbera kerfi. Öruggt og heilsusamlegt heimili er ein helsta forsenda velferðar og til að komast út úr fátækt. Samt sem áður búa margar fjölskyldur á Íslandi við mikið óöryggi, tíða flutninga, dýran húsakost, þröngbýli og jafnvel í heilsuspillandi húsnæði. Of stórt hlutfall ráðstöfunartekna fer í húsnæðiskostnað á Íslandi og borga 25% leigjenda á Íslandi meira en 50% ráðstöfunartekna sinna í leigu og 10% leigjenda verja meira en 70% ráðstöfunartekna. Börn eru sá samfélagshópur sem hve viðkvæmastur er fyrir þeim áföllum og átökum sem dynja á þjóðum og samfélögum og líða mest til skemmri og lengri tíma. Covid-19 faraldurinn hefur reynst börnum og fjölskyldum þeirra erfiður, ekki síst vegna aukins atvinnuleysis, skerðingar á þjónustu í faraldrinum, sóttkví og röskun á skólastarfi. Auknar byrðar hafa verið lagðar á foreldra sem mörgum hverjum var gert að sinna námi barna sinna í auknum mæli burt séð frá atgerfi sínu eða barnanna.

Gefum barni tækifæri

Á aðventunni er okkur öllum hollt að rifja upp sögu H.C. Andersen um Litlu stúlkuna með eldspýturnar. Sum börn fá líkt og hún einungis smjörþefinn af kræsingunum, njóta einungis myndanna í auglýsingabæklingunum og eiga jafnvel engan sem þau geta leitað til eða treyst. Þau horfa á félaga sína njóta vellystinga og risastórra skógjafa og jólagjafa. Þau fá ekki tækifærin sem félagarnir fá og finnst þau jafnvel ekki eiga þau skilið. Þau hlífa fjölskyldu sinni við vanmætti sínum og biðja ekki um það sem aðrir telja nauðsynjar lífsins. Sum draga sig jafnvel í hlé, geta ekki eða fá ekki að taka þátt í samfélagi jafnaldra vegna stöðu sinnar. Sem betur fer eiga flest börn á Íslandi húsaskjól og krókna því ekki úti í kaldri vetrarnóttinni eins og litla stúlkan með eldspýturnar. Það á þó ekki við um öll börn heimsins.

Að rjúfa félagslegan arf og koma í veg fyrir að fátækt erfist kynslóð fram af kynslóð er verðugt verkefni. Við getum öll tekið þátt í því. Við getum hvert og eitt okkar verið sá velgjörðarmaður sem gefur barni tækifæri, sem hjálpar barni við að láta drauma sína rætast. Við getum sýnt umhyggju, opnað dyr okkar og faðm og verið góð fyrirmynd. Við getum sýnt kærleika og stutt fjölskyldur með einum eða öðrum hætti. Við getum rætt við börnin okkar um mikilvægi virðingar fyrir margbreytileikanum. Við getum rætt um mikilvægi þess að öll börn fái að tilheyra hópnum burt séð frá stöðu þeirra. Við getum lagt áherslu á að það að eiga eitthvað eða geta eitthvað á aldrei að vera forsenda þess að fá að tilheyra. Við getum reynt að stuðla að því ekkert barn verði útundan.

Við getum fylgst með. Við getum bent á það sem miður fer í samfélaginu. Við getum stuðlað að samfélagssáttmála í hverfinu okkar um að öll börn geti tekið virkan þátt í því sem í boði er, svo sem tómstundum. Við getum þrýst á stjórnvöld og bent á það sem þarf að lagfæra. Við getum unnið saman.

Við getum litið í eigin barm. Við getum verið gagnrýnin. Við getum skoðað eigin neyslu í jólamánuðinum.

Með því að draga úr neyslu erum við jafnframt að vinna að umhverfisvernd, gegn loftslagsbreytingum og þar með að betri framtíð fyrir börn heimsins. Verum öll vakandi á aðventunni. Verum vakandi fyrir náunganum, fyrir nágrannabarninu. Verum vakandi fyrir samfélagi manna og umhverfinu. Þannig stuðlum við að velferð, betra samfélagi og betri jörð. Komum öllum börnum inn úr kuldanum, veitum þeim skjól og tækifæri til innihaldsríks líf.

Grein birtist á Vísi.is þann 15. desember 2021