Gott er að eiga vin - tónlistin í Vináttu

Barnaheill – Save the Children á Íslandi bjóða nú upp á sérstakt tónlistarnámskeið í tengslum við Vináttu sem miðar að því að veita leikskólakennurum og leiðbeinendum innblástur og góðar hugmyndir um notkun tónlistarefnisins í starfinu með hugmyndafræði og gildi Vináttu að leiðarljósi. Kennari á námskeiðinu er Birte Harksen, leik- og grunnskólakennari, sem hefur um árabil unnið með tónlist og dans á heilsuleikskólanum Urðarhóli.
Birte hefur sótt námskeið hjá höfundi tónlistarinnar, Anders Bøgelund, í Danmörku og notað efnið í leikskólum í Kópavogi; „Þetta efni er einstaklega vel unnið og skemmtilegt að nota með leikskólabörnum,” segir Birte um tónlistarefnið. 
Umsögn kennara: 

„Mig langar að lýsa ánægju minni með tónlistarnámskeiðið hjá Birte. Ég hef unnið með Vináttuverkefnið frá upphafi og finnst þetta alveg frábært efni sem ég nýti í nánast öllum stundum. Þar til ég fór á tónlistarnámskeiðið hafði ég hins vegar ekki nýtt mér tónlistina sem fylgir Vináttu. En Birte opnaði fyrir mér nýja vídd með efnið og gaf flottar hugmyndir um hvernig hægt er að nýta tónlistina og leiki til að stuðla að góðri vináttu og efla vinatengsl.“
Sigríður Kristín Sigurðardóttir, 4/5 ára deild í Flataskóla.