Guðjón Davíð Karlsson – viðtal

Gói ásamt börnum sínum.
Gói ásamt börnum sínum.

Guðjón Davíð Karlsson, leikari, eða Gói eins og hann er gjarnan kallaður, varð fyrir grófu einelti í grunnskóla. Árum saman var hann niðurlægður, níddur og kallaður prestadjöfull vegna þess að pabbi hans var þekktur prestur.

Það er venjulegur dagur í lífi Góa þegar við hittumst í „græna herberginu“ í Þjóðleikhúsinu. Í morgun var það hann sem fylgdi börnunum, sex ára stelpu og níu ára strák, í skóla, en þau hjónin skiptast á því eiginkona Góa er ljósmóðir og vinnur vaktavinnu. Í græna herberginu prýða veggspjöld úr sýningunni Slá í gegn veggina. Gói er bæði leikstjóri og handritshöfundur sýningarinnar sem hefur notið mikillar velgengni síðustu mánuði.

Viti maður ekkert um Góa, gæti maður haldið að lífið hafi leikið við hann. Gott uppeldisheimili, frami í sjónvarpi, kvikmyndum og á leiksviði, heilbrigð börn og gott hjónaband. En Gói hefur auðvitað fengið sinn skammt af mótlæti í lífinu.

„Þetta byrjaði allt dag einn þegar ég var að ganga útaf skólalóðinni í Austurbæjarskólanum, upp tröppurnar með gráu skólatöskuna mína á bakinu. Ég var í eigin heimi. Þetta var geggjuð skólataska, með svona járn kanti. Allt í einu kippir einhver í járnkantinn og ég er bara tekinn og skellt upp við vegginn fyrir neðan tröppurnar. Fimm eldri strákar klæddir í svartar úlpur. Ég er mjög hræddur. Hvað ætla þeir að gera? Ég meiði mig. Mér er illt. Einn tekur upp hníf og leggur við hálsinn á mér. „Reyndu að biðja fyrir þér núna prestadjöfull,“ segir hann. Tíminn stoppar. Hvað er að gerast? Skyndilega skýtur hann hnífsblaðinu út og þá var þetta greiða! Þeir sleppa mér hlæja og hrópa: „Vá pabbi hans er Guð!“ Ég var algjörlega dofinn og síðan hef ég hef oft hugsað hvernig ætli þeim hafi liðið? Hvernig líður manni ef maður hefur þörf fyrir að koma svona fram við aðra?“

Svona hófst eineltið og eftir þetta gat Gói átt von á árásum í hvert sinn sem hann fór úr skólanum. Hann var aldrei óhultur. Eineltið stóð yfir í um tvö ár eða þangað til „gerendurnir“ útskrifuðust úr Austurbæjarskólanum.

Alvarlegasta líkamlega atvikið endaði með heimsókn á slysadeild þegar hann hlaut annars stigs bruna á baki. „Ég var í sturtu eftir skólaleikfimi. Stóð einn í sturtunni og setti sjampó í hárið. Skyndilega fann ég einkennilega tilfinningu, Vissi ekki hvort mér var heitt eða kalt. Allt fylltist af gufu. Ég gat ekki hreyft mig í smá stund. Svo náði ég að hlaupa út. Einn af þessum eldri eðalgaurum hafði laumað sér inn og breytt hitastillingunni.“ Á slysadeildinni kom í ljós hversu alvarlegur bruninn var.

„Ég fann lengi til í húðinni eftir þetta, en það er samt merkilegt hvað eymslin í hjartanu voru alltaf meiri. Bruni á baki, harður snjóbolti í eyrað, snjór ofaní hálsmálið allt var þetta vont, óþægilegt og sárt. En það að vera særður í hjartanu, líða illa, hugsa og jafnvel og trúa því að maður sé ömurlegur, leiðinlegur og ljótur. Það eru sár sem hverfa ekki. Þú vaknar ekki morguninn eftir og hugsar ekki um það. Þetta er alltaf með manni.“

„Stundum leið mér ekki vel. Ég var hræddur, stressaður og kvíðinn. En það sem hjálpaði svo gríðarlega og kom mér heilum út úr þessu var að mér leið vel heima og með vinum og bekkjarfélögum. Ég var í frábærum bekk og vinsæll í árganginum og náði að „gleyma“ inná milli.“

Enginn af vinum hans tók eftir eineltinu, af því það átti sér yfirleitt stað eftir skóla; „Ég var alltaf svo hress. Það voru þessir eldri strákar sem létu mig finna fyrir því. Níddust á mér. Kaffærðu mér í snjó, lömdu mig, hrintu, tæmdu skólatöskuna. Uppnefndu mig. Ég brást oftast við með því að fara í hlutverk trúðsins, reyndi að svara fyrir mig, en vissi ekki hvernig ég ætti að snúa mér í þessu.“

Þetta var fyrir tíma eineltisáætlana og ekkert eineltisteymi var í skólanum. Gói sagði ekki frá, því hinir fullorðnu höfðu líka látið hann finna fyrir því að hann væri sonur pabba síns; „ Ég átti að vera „heilagari“ en hinir krakkarnir. Eitt sinn þegar ég blótaði, rak einn kennarinn til dæmis upp öskur og sagði: „Ekki trúi ég að prestssonurinn hafi verið að blóta!“ … og allir fóru að hlæja. Þó svo að kennarinn hafi eflaust ekki áttað sig á því, þá var „saklaus“ stríðni hans ekki svo saklaus fyrir mig því heildarmyndin var svo neikvæð og þetta bættist ofan á allt hitt.“

Gói sagði ekki heldur frá heima. Samt voru góð tengsl í fjölskyldunni; „Ég átti mjög gott samband við mömmu og pabba og við töluðum mikið saman. En ég vildi ekki særa pabba. Þeir voru alltaf að segja prestadjöfull, sonur Guðs og svo framvegis, og ég vildi ekki að honum fyndist eins og þetta væri honum að kenna.“

Séra Karl Sigurbjörnsson, pabbi Góa, var prestur í Hallgrímskirkju og hafði fermt nánast alla krakkana í Austurbæjarskóla. Fyrir utan að hafa líklega skírt þau líka og gift foreldra þeirra. „Það þekktu hann allir. Það var oft sagt við mig prests-eitthvað. Og af því að það var yfirleitt neikvætt þá urðu þessi prestssona komment viðkvæm og þetta risti alltaf dýpra og dýpra. “

Í dag þegar Gói er sjálfur í foreldrahlutverkinu hlýtur hann að velta fyrir sér hvort börnin hans gætu lent í sömu stöðu: „Auðvitað. Ég hugsa mikið um það og vil auvitað ekki að þau upplifi þá vanlíðan sem því fylgir að verða fyrir einelti hvort sem er sem fórnarlamb eða gerendur. Ég tala við þau um skólann og hvernig þeim líði og hvernig öðrum líði. Hvort það séu ekki allir vinir.“

„Og ég get ekki sleppt því að tala um eitt sem lætur mér líða mjög illa enn þann dag í dag. Líklega situr það mest í mér. Ég er nefnilega ekki bara fórnarlamb eineltis ég er líka gerandi. Ég horfði á, hlustaði og þagði þegar skólafélagi minn var tekinn fyrir.  Ástæðan var líklega sú að ég var mjög feginn að vera sjálfur ekki fórnarlambið þá stundina. En auðvitað hefði ég átt að standa upp. Það þarf nefnilega ekki nema einn til að standa upp og segja stopp. Það er sárt og leiðinlegt að hafa þetta á samviskunni.“

„Ég hef oft hugsað hvað hefði þurft til að taka á þessu á sínum tíma. Ég held að það að tala meira um tilfinningar skipti máli. Að kennarar og nemendur ræði hvernig hverjum og einum líði. Tala um margbreytileikann og hvað hann skiptir miklu máli.“

Hefur leiklistin hjálpað honum að vinna úr reynslunni?

„Auðvitað nýtir maður allt í leiklistinni. Allar tilfinningar og upplifanir fara í „tilfinningabanka“ sem maður sækir í. Svo var góð meðferð að skrifa um þetta í sjónvarpsmyndinni Klukkur um jól sem ég gerði. Þá náði ég kannski í fyrsta skipti að kafa dáldið ofan í þetta og skrifa mig frá þessu ef svo má að orði komast.“

Vinátta

Gói á tvö börn sem þekkja Vináttuverkenfni Barnaheilla. Þau voru bæði í vináttuleikskóla og eru nú í skóla sem er þátttakandi í tilraunakennslu efnisins fyrir grunnskóla; „Vináttuverkefnið er frábært verkefni. Það er svo mikilvægt að hjálpa börnum með góð samskipti, forðast aðstæður sem geta hrundið af stað neikvæðni, vanlíðan og stríðni. Mér finnst gott að sjá að þegar bekknum er skipt upp leika allir við alla. Að það skapist ekki aðstæður á borð við: „Oooo, við vorum líka með Góa í liði í síðasta tíma. Hann getur ekkert.“ Það eru þessi mikilvægu skilaboð um að allir séu góðir í einhverju sem verkefnið kemur svo vel til skila.“

„Hugmyndafræði Vináttuverkefnisins ætti að innleiða í alla skóla. Tölum saman. Kennum börnum að tjá tilfinningar sínar. Búum til umhverfi heima og í skólanum sem hvetur börn til að opna sig og segja frá hvernig þeim líður. Að það sé eðlilegur hlutur að tala um tilfinningar.  Svo er það þetta með mörkin, öll höfum við okkar mörk og mér finnst frábært að þau vinni saman og kynnist mörkum hvers annars. Þá verða samskipti svo miklu eðlilegri og heilbrigðari. Þau læra að það má segja nei, stopp.“

Og talið berst aftur að fjölskyldunni og samverustundum með börnunum:

„Dýrmætustu stundirnar eigum við þegar við tölum saman án þess að vera trufluð af tækninni, þessum endalausu meldingum úr símum og samfélagsmiðlum. Það gerist t.d. þegar við förum í sund og í heita pottinn. Þá erum við í núinu og tölum um allt milli himins og jarðar. Þetta eru svo miklir snillingar og það er svo gaman að tala við þau um lífið og tilveruna. Þá ræðum við líka einelti og ég spyr hvernig þau upplifi sig í skólanum eða hvort þau taki eftir hvort einhver sé einn, eins og til dæmis í íþróttum. Við höfum líka rætt sjónvarpsmyndina sem ég gerði, Klukkur um jól, sem er byggð á reynslu minni af einelti og þau vita að hún byggir á hlutum sem ég lenti í. Og svo ræðum við alls konar annað skemmtilegt líka, bara svo það komi fram,“ segir Gói og hlær.

Það er komið að lokum vinnudagsins og Gói er á leiðinni að sækja börnin. „Ég var búin að lofa þeim að fá ís í dag,“ segir hann glaðlegur og það er greinileg tilhlökkun hjá honum sjálfum að vera með börnunum.

En áður en við kveðjumst kemur Vináttuverkefni Barnaheilla aftur til tals: „Þetta verkefni fyllir mig bjartsýni og veitir mér von um að það verði hægt að koma í veg fyrir einelti.  Áður en Vináttuverkefnið kom þá var eina „meðalið“ sem skólinn hafði kannanir sem lagðar voru fyrir börnin. Þær voru meira gerðar fyrir skólann svo hann gæti friðað sig og látið eins og allt væri í lagi. En við verðum að viðurkenna að einelti á sér stað. Það geta orðið árekstrar í samskiptum. Lausnin er að kenna fólki að vinna saman. Að samþykkja náungann eins og hann er, skoða kostina og sætta sig við gallana hjá okkur sjálfum og náunganum. Mér finnst Vináttuverkefnið vinna að því. Ef við ölum upp sterka sjálfstæða einstaklinga, þá fyllist skólalóðin af hugrökkum, sjálfstæðum og sterkum nemendum sem láta ekki vaða yfir sig og aðra. Það er besta forvörnin gegn einelti.“

GóiViðtal: Sigríður Guðlaugsdóttir