Guðmundur Fylkisson hlýtur Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi

Guðmundur Fylkisson hlaut viðurkenningu Barnaheilla árið 2020
Guðmundur Fylkisson hlaut viðurkenningu Barnaheilla árið 2020

Guðmundur Fylkisson hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2020 fyrir störf í þágu barna og ungmenna sem eru í vanda og þá nálgun sem hann hefur í samskiptum sínum við þau. Guðmundur leggur sig fram um að nálgast ungmenni af virðingu og nærgætni til að auka ekki á vanlíðan þeirra og skaða. Þrátt fyrir að hann starfi fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar hann við leit að börnum alls staðar af landinu. Guðmundur leggur sig fram um að varast staðalímyndir því börnin sem hann leitar að eru á ýmsum aldri og með mismunandi bakgrunn og bakland þeirra missterkt.

Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi Barnaheilla.  

Afhending viðurkenningarinnar fór fram í veislusal veitingastaðarins Nauthóls og var streymt á fésbókarsíðu Barnaheila https://www.facebook.com/BarnaheillSavetheChildrenIceland.

Harpa Rut Hilmarsdóttir, formaður Barnaheilla, flutti ávarp og tilkynnt hver hlyti viðurkenninguna. Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp og afhenti viðurkenninguna. Guðmundur Steingrímsson fyrrverandi stjórnarmaður í stjórn Barnaheilla stýrði athöfninni.

 

Harpa  Rut Hilmarsdóttir formaður Barnaheilla, skjáskot

Guðmundur Steingrímsson, skjáskot