Guðni forseti kaupir fyrsta ljósið í landssöfnun Barnaheilla

Hin árlega Landssöfnun Barnaheilla hófst í dag og stendur hún yfir til 4. maí. Ljós eru seld til styrktar verkefninu Verndarar barna, sem er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn kynferðisofbeldi á börnum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opnaði formlega Landssöfnunina með því að kaupa fyrsta ljósið við höfuðstöðvar Barnaheilla. Reykjavíkurdætur sýndu söfnuninni einnig samstöðu með nærveru sinni og fóru með erindi sem endurspeglaði kjarna Landssöfnunarinnar.

Söfnunin í ár ber heitið ,,Hjálpumst að við að vernda börn” og rennur allur ágóði af sölunni í forvarnafræðslu Verndara barna. Markmið verkefnisins er að efla vitundarvakningu og fræðslu í forvörnum gegn kynferðisofbeldi, meðal annars með öflugum námskeiðum. Námskeiðin eru fyrir alla 18 ára og eldri sem vilja fá öfluga fræðslu og markvissa þjálfun í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðisofbeldi af festu og ábyrgð. Með fræðslu til fullorðinna um fyrirbyggjandi leiðir og rétt viðbrögð við einkennum um kynferðisofbeldi gegn börnum getum við stuðlað að betri lífsgæðum þessara barna.

Ljósið kostar 2.500 kr. og eru bæði einstaklingar, íþróttafélög og félagasamtök um allt land að selja ljósið fyrir hönd Barnaheilla. Einnig er hægt að kaupa ljósið í vefverslun okkar hér.