Hátt í 500 börn og foreldrar ýttu Heillakeðju barnanna 2012 úr vör í dag

Hátt í 500 börn og foreldrar komu saman við Reykjavíkurtjörn í ljósaskiptunum í dag þegar Barnaheill - Save the Children á Íslandi, í samstarfi við tólf íslensk fyrirtæki, ýttu Heillakeðju barnanna 2012 úr vör. Markmið átaksins er að vekja athygli á stöðu og réttindum barna auk þess að safna fé til verkefna í þágu barna.

Hátt í 500 börn og foreldrar komu saman við Reykjavíkurtjörn í ljósaskiptunum í dag þegar Barnaheill - Save the Children á Íslandi, í samstarfi við tólf íslensk fyrirtæki, ýttu Heillakeðju barnanna 2012 úr vör. Markmið átaksins er að vekja athygli á stöðu og réttindum barna auk þess að safna fé til verkefna í þágu barna.

Börn og foreldrar létu ekki örlítinn rigningarúða á sig fá heldur fjölmenntu við Reykjavíkurtjörn þar sem þau fengu afhend neonljós. Markmiðið var að mynda keðju í kringum tjörnina en aðeins vantaði upp á fjöldann til þess að svo mætti verða. Því var ákveðið að ganga fylktu liði umhverfis tjörnina og var góður andi í hópnum. Göngunni lauk svo við Iðnó þar sem staðarhaldari, Margrét Rósa Einarsdóttir, tók á móti hópnum með heitu kakói en starfsfólk Barnaheilla - Save the Children á Íslandi deildi út stjörnuljósum sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg gaf. 

Heillakeðja barnanna 2012 er því formlega komin af stað. Tólf íslensk fyrirtæki hafa tekið í fóstur einn mánuð af árinu og skuldbundið sig til að vekja athygli á málefnum barna og safna, með hjálp viðskiptavina sinna, fjár til verkefna Barnaheilla - Save the Children á Íslandi í þágu barna. Blómaval ríður á vaðið og er fyrirtæki janúarmánaðar. Hægt er að fylgjast með heillakeðjunni inn á www.facebook.com/heillakedjan

Barnaheill - Save the Children á Íslandi þakka öllum börnum og foreldrum þeirra fyrir frábæra samverustund í dag.