Heillagjafir fyrir börn á stríðshrjáðum svæðum

Á síðunni Heillagjafir.is er hægt að kaupa ýmsar gjafir sem stuðla að bættri heilsu, öryggi og menntun barna sem eiga sárt að binda. Fleiri börn en nokkurn tímann áður búa nú á stríðshrjáðum svæðum og talið er að um 330 milljónir barna víðsvegar um heiminn eigi á hættu að vera neydd til liðs við vígahópa. Börn sem búa við vopnuð átök eru í mikilli hættu á að slasast, kljást við langvinn andleg og líkamleg veikindi eða láta lífið. Þátttaka barna í átökum er mikið áhyggjuefni en vandamál sem hafa versnað vegna heimsfaraldursins, eins og fátækt og lokun skóla, eru meðal ástæðna þess að börn eru í meiri hættu en áður á að vera neydd til liðs við vopnaða hópa.

Fjölgun barna sem búa á stríðshrjáðum svæðum má að hluta til rekja til aukinna átaka í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó, þar sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi starfa. Heillagjafirnar renna meðal annars til barna þar í landi, en vegna átaka hefur fjöldi barna verið hrakinn á flótta frá heimilum sínum, auk þess sem mörg þeirra hafa verið þvinguð til að ganga til liðs við vopnaða hópa. Þar á meðal er Jean :

,,Við vorum við ána að synda þegar fólk kom og neyddi okkur inn í skóginn. Það misþyrmdi okkur, lamdi okkur, og kenndi okkur að ræna fólki og drepa. Við höfum gengið í gegnum mikla erfiðleika,“ segir Jean* 17 ára, sem var neyddur til að ganga til liðs við vígahóp í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó áður en honum var bjargað af samstarfssamtökum Barnaheilla - Save the Children, KUA. ,,Þegar ég var í skóginum leið mér mjög illa. Ég var mjög hræddur. Líf mitt var erfitt."

Verkefni Barnaheilla í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó eru fjölbreytt, en samtökin styðja meðal annars við barnvæn svæði í landinu. Tilgangur þeirra er að valdefla börn, veita þeim tækifæri til að læra, leika sér og taka þátt í athöfnum sem eru bæði fræðandi og efla félags- og tilfinningalega færni. Heillagjafir eins og bakpokar, námsgögn, bækur og leikföng koma sér því einstaklega vel á barnvænum svæðum.

Inger Ashing framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children, leggur áherslu á mikilvægi þess að grípa til aðgerða og aðstoða þau börn sem eiga um sárt að binda:

,,Milljónir barna hafa aldrei þekkt neitt annað en stríðsástand, sem hefur hræðileg áhrif á andlega heilsu, menntun þeirra og aðgengi að lífsnauðsynlegri þjónustu. Þetta er ljótur blettur á alþjóðasamfélaginu og getur ekki haldið svona áfram “.

,,Við vitum að við getum tekist á við erfiðar áskoranir og náð fram ótrúlegum árangri þegar við vinnum saman, eins og við höfum gert með þróun Covid-19 bóluefna. Núna verðum við að gera það sama til að vernda börn gegn átökum“.

Með því að kaupa Heillagjafir getur þú stuðlað að auknum lífsgæðum bágstaddra barna í Síerra Leóne, Líberíu og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.

.Barnaheill - Save the Children á Íslandi eru með  verkefni í S uður-Kívu í austurhluta Kongó