Heimilisfriður fyrir börnin

Það er best fyrir börn að búa við frið. Það er best fyrir börn að búa hjá for­ eldrum sínum. Það er best fyrir börn að fá kærleiksríkt uppeldi. 
Leiða má líkum að því að flestir séu sammála þessum fullyrðingum. Við stefnum örugglega öll að því að búa börnum okkar bestu mögulegu lífsskilyrði og uppeldisaðstæður. Við stefnum örugglega öll að því að tryggja bestu mögulegu líðan og velgengni barnsins okkar og fjölskyldu. 
Þegar foreldrar ákveða að búa ekki saman ber þeim að tryggja að barn njóti umgengni við það foreldri sem það býr ekki hjá. Sú skylda á við um báða foreldra. Þeim ber einnig að gæta þess að umhverfi barns og heimili sé því griðastaður. Staður þar sem barn upplifir frið og öryggi, því slíkt umhverfi er ákjósanlegast svo barn nái að þroskast á besta mögulega hátt og öðlist góðan undirbúning til að lifa sjálfstæðu lífi í frjálsu samfélagi. Börn hafa þannig þörf fyrir góða umönnun, jákvæð tengsl, stöðugleika, öryggi, ró, jákvæðan aga eða ramma og fyrirsjáan- lega framtíð. Í öllu þessu felst að foreldrar ættu aldrei að beita neikvæðri innrætingu í garð hins foreldrisins, heldur fremur að leggja sig fram um að styrkja hitt foreldrið í hlutverki sínu, fyrir barnið. 
Við fullorðna fólkið höfum öll okkar marg- breytilegu verkefni, áherslur og skoðanir. Við höfum misjafnar aðferðir sem við styðjumst við í uppeldi barnanna okkar og okkar aðferðir eru ekki endilega þær einu réttu. Aðrar aðferðir geta verið ólíkar okkar en þurfa alls ekki að vera verri.Við erum alls konar. 
Sum börn búa við það að hitta ekki annað foreldri sitt, af ýmsum ástæðum. Vafalaust er misjafnt hvernig þau börn upplifa það og hvaða áhrif það hefur á þau, en rannsóknir sýna að tengsl barns við báða foreldra sína eru því mjög mikilvægt veganesti út í lífið. Svo getur virst sem sumum börnum líði betur að hitta ekki annað foreldri sitt. Þau segi að þau vilji það ekki. Börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og það er mikilvægt að við fullorðna fólkið tökum tillit til þeirra. Í tilfellum þar sem annað foreldrið er útilokað af hinu foreldrinu frá því að eiga samskipti eða umgengni við barnið þarf hins vegar að skoða hvort sá vilji sé í raun þeirra eigin vilji, eða hvort um er að ræða skoðun eða vilja annars foreldrisins sem barnið hefur neyðst til að gera að sínum. Alltaf þarf að skoða hvert tilfelli gaumgæfilega og tryggja bestu hagsmuni barns. 


Foreldrar gegna mörgum skyldum gagnvart börnum sínum, meðal annars sem koma fram í lögum. Sem dæmi má nefna 1. grein barna- laga sem foreldrum ber að þekkja og virða: „Barn á rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Barn á rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. “ 
Það er líka gott að þekkja hvað felst í forsjárskyldum samkvæmt barnalögum en í 28. gr. þeirra segir meðal annars: „Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. [......] Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns.Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.“ 


Foreldrar sem eiga í útistöðum bera mikla ábyrgð á að bæta samskipti sín svo barnið megi búa við frið og öryggi. Barnaheill hvetja foreldra í slíkum aðstæðum til að leita allra leiða, svo sem að leita til fjölskylduráðgjafa um stuðning við að búa barninu lífvænleg uppeldisskilyrði. Margt er hægt að gera til að auka foreldrafærni og styrkja foreldra í hlutverki sínu. Það er öllum hollt að skoða sjálfa sig og rækta. Það er alltaf hægt að finna leiðir og lausnir ef vilji er fyrir hendi. 
Semjum um heimilisfrið fyrir börnin okkar. 
Þóra Jónsdóttir
Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2017.