Hjólasala Barnaheilla 2020 hefst fimmtudaginn 14. maí

Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi fór fram í níunda sinn í ár en hún er unnin í samstarfi við Æskuna barnahreyfingu IOGT, Sorpu og ýmsa aðra velunnara​. Rúmlega 300 umsóknir um hjól bárust í ár og hefur aldrei fleiri hjólum verið úthlutað til barna og unglinga sem ekki hafa tök á því að kaupa sér reiðhjól. Hjólum var úthlutað í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga úti um allt land. Mikil ánægja og gleði ríkti við hjólaúthlutunina hjá bæði börnum og foreldrum. Einn faðir fékk tár í augun þegar félagsráðgjafi sagði honum frá því að börnin hans fengju hjól frá Barnaheillum, sem endurspeglar markmið hjólasöfnunarinnar, að gleðja börn og fjölskyldur þeirra.


Nú er úthlutun hjóla lokið og hefst hin árlega hjólasala Barnaheilla n.k. fimmtudag. Þá verða seld afgangshjól á góðu verði til styrktar verkefnum Barnaheilla. ​Hjólasalan fer fram daganna 14. – 16. maí, nánari upplýsingar um opnunartíma hjólasölunnar má nálgast á Facebook-síðu​ söfnunarinnar. Hjólasöfnunin hefur mjög breiða skírskotun í lýðheilsu- og samfélagslega þætti þar sem öllum börnum er gert kleift að geta hreyft sig utandyra, bæta úthald og líkamlegan styrk og njóta umhverfisins. Auk þess eflir verkefnið þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu og veitir þeim aukna vellíðan. Linda, verkefnastjóri Hjólasöfnunar Barnaheilla, stendur vaktina alla daga og segir þetta vera yndislegt verkefni sem mikil þörf er á.