Hjólasöfnun Barnaheilla hófst í dag

Kolbrún María Másdóttir, Matthías Freyr Matthíasson, Alba Davíðsdóttir Lamude og Aðalsteinn Gunnarss…
Kolbrún María Másdóttir, Matthías Freyr Matthíasson, Alba Davíðsdóttir Lamude og Aðalsteinn Gunnarsson.

Hjóla­söfn­un Barna­heilla var hleypt af ­­stokkunum um hádegisbil í dag, 1. mars í Sorpu á Sæv­ar­höfða. Kolbrún María Másdóttir hjá Krakkafréttum á KrakkaRúv af­henti Ölbu Davíðsdóttur Lamude og Blæ fyrsta hjólið í söfn­un­ina og hvatti þannig aðra til að láta gott af sér leiða og koma hjól­um sem ekki eru í notkun til þeirra sem hafa not fyrir þau. Allar end­ur­vinnslu­stöðvar Sorpu á höfuðborgarsvæðinu taka við hjólum. Sjálfboðaliðar munu gera hjól­in upp und­ir styrkri stjórn sér­fræðinga í reiðhjólaviðgerðum áður en þau verða af­hent nýjum eigendum.

Söfn­un­in stend­ur yfir til 1. maí og hefjast út­hlut­an­ir um miðjan apríl. Þá verða hjólin gef­in börn­um og ung­ling­um sem ekki hafa tök á að eignast reiðhjól. Hægt er að sækja um hjól hjá félagsþjónustu sveitarfélaga.

Hjólasöfnunin er nú haldin í ellefta sinn og hefur verkefnið mjög breiða samfélagslega skírskotun þar sem það eflir félagslega þátttöku barna. Hátt í 3.000 börn hafa notið góðs af hjóla­söfn­un Barna­heilla frá því henni var fyrst hrundið af stað árið 2012.

Verkefnið er unn­ið í sam­starfi við Æsk­una barna­hreyf­ingu IOGT, Sorpu og ýmsa aðra velunnara.

Hægt er að fylgj­ast með verk­efn­inu á Face­book síðu söfn­un­ar­inn­ar og einnig er hægt að skrá sig þar til þátt­töku í sjálf­boðaliðastarf fyr­ir hjólaviðgerðir.