Hjólasöfnun Barnaheilla 2015 lokið

Fjórðu Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi lauk í vikunni þegar 150 hjólum hafði verið úthlutað til barna sem annars ættu ekki kost á að eignast hjól. Um 400 hjól í misgóðu ástandi söfnuðust í ár og eftir viðgerðir sjálfboðaliða, voru 200 góð hjól til skiptanna. Um 50 hjól voru síðan gefin áfram til Hjálparstarfs Kirkjunnar.

Fjórðu Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi lauk í vikunni þegar 150 hjólum hafði verið úthlutað til barna sem annars ættu ekki kost á að eignast hjól. Um 400 hjól í misgóðu ástandi söfnuðust í ár og eftir viðgerðir sjálfboðaliða, voru 200 góð hjól til skiptanna. Um 50 hjól voru síðan gefin áfram til Hjálparstarfs Kirkjunnar.

Hjólasöfnunin er samstarfsverkefni Barnaheilla, Æskunnar barnahreyfingar IOGT og Íslenska fjallahjólaklúbbsins. Verkefnið felst í að safna hjólum á móttökustöðvum Sorpu og Hringrásar, gera við hjólin og úthluta þeim svo til barna sem ekki geta eignast hjól með öðru móti. Úthlutun er unnin í samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaganna.

„Verkefnið hefur vaxið og þróast og nú var börnum af landsbyggðinni í fyrsta sinn boðið að sækja um hjól. Um það bil 40 hjól voru því send út á land,“ segir Þóra Jónsdóttir, verkefnastjóri hjólasöfnunarinnar og bætir við að á hverju ári bætist í reynslubunkann; „Við viljum til dæmis líka hafa úrval af hjólum svo börnin geti valið úr. Það sem eftir stendur er því gott að geta gefið áfram til Hjálparstarfs Kirkjunnar.“

Auk ofantaldra samstarfsaðila hafa margir lagt verkefninu lið og er þeim þakkað innilega fyrir þeirra framlag. Þeir eru Sorpa, Hringrás, Pósturinn, Félagsþjónustan á allri landsbyggðinni, Flytjandi, Dominos Pizza, Fasteignafélagið Eik, GÁP hjólabúðin, Útilíf, Markið, Örninn, Kiwanis klúbbarnir í Hafnarfirði, allir sem gáfu hjól.

„Síðast en ekki síst ber að þakka frábærum sjálfboðaliðum í reiðhjólaviðgerðum. Án þeirra framlags væri framkvæmd verkefnisins ekki möguleg,“ segir Þóra að lokum.

Nánari fréttir af hjólasöfnuninni er að finna á Facebook síðu söfnunarinnar www.facebook.com/hjolasofnunBarnaheilla.