Hjólasöfnun Barnaheilla hefst á mánudag

Mánudaginn 26. maí hefst hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi sem stendur yfir til 15. júní. Þetta er í þriðja sinn sem staðið er fyrir söfnun á notuðum reiðhjólum fyrir börn og unglinga.

Lumar þú á reiðhjóli í geymslunni?

- Gefðu barni hjól og komdu hjólinu aftur í umferð -

Mánudaginn 26. maí hefst hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Að þessu sinni er hún unnin í samstarfi við Æskuna barnahreyfingu IOGT og Íslenska fjallahjólaklúbbinn. Þetta er í þriðja sinn sem staðið er fyrir söfnun á notuðum reiðhjólum fyrir börn og unglinga, en söfnunin stendur til 15. júní 2014.

Hjólunum verður safnað á endurvinnslustöðvum Hringrásar og Sorpu á höfuðborgarsvæðinu.Þau verða gerð upp og eru ætluð börnum sem ekki hafa kost á því að kaupa sér reiðhjól. Hægt er að sækja um hjól hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og í Reykjanesbæ.

Sjálfboðaliðar gera hjólin upp undir styrkri stjórn sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum á vegum Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Æskunnar, barnahreyfingar IOGT. Þau verða síðan afhent í júní. Á facebook-síðu hjólasöfnunarinnar getur fólk fylgst með og skráð sig til þátttöku í viðgerðum.

Eftirfarandi staðir taka við hjólum í söfnunina:

  • Hringrás - Klettagörðum í Reykjavík
  • Sorpu – Dalvegi í Kópavogi, Breiðhellu í Hafnarfirði, Sævarhöfða, Ánanaustum og Jafnaseli í Reykjavík og Blíðubakka í Mosfellsbæ.

Verkefnið hlaut styrk úr Lýðheilsusjóði.