Hrafn Jökulsson – viðtal

Hrafn Jökulsson hlaut Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2015. Hrafn er landsþekktur rithöfundur, eldhugi og stofnandi skák félagsins Hróksins. Áhersla hans á vináttu og á að valdefla börn og styrkja þau félagslega samræmast áherslum Barnaheilla á mannréttindi barna.
Hrafn og félagar hans í Hróknum hófu „skáklandnám“ á Grænlandi árið 2003 og hafa í rúmlega 40 ferðum kennt grænlenskum börnum skák og gefið þeim gjafir á borð við taflsett, fatnað og aðrar nauðsynjavörur. Sama ár hófu þeir einnig að heimsækja vikulega börn á Barnaspítala Hringsins í þeim tilgangi að tefla við þau. Þá hefur KALAK vinafélag Grænlands og Íslands, þar sem Hrafn situr í stjórn, staðið fyrir því að grænlenskum börnum sé boðið í tveggja vikna ferðir til Íslands til að læra að synda.
Hrafn Jökulsson hefur brunnið fyrir skáklistina allt frá barnsaldri og í gegnum hana fann hann einnig farveg fyrir að láta gott af sér leiða og efla mannréttindi barna.  Þar fetar hann einnig í fótspor móður sinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, sem hann segir sína helstu fyrirmynd.
Mannganginn lærði Hrafn einungis sex eða sjö ára gamall þegar hann byrjaði að tefla við Höskuld Skarphéðinsson, skipherra með meiru, og Guðmund Jónsson, óðalssbónda í Stóru‐Árvík.
„Höskuldur var stjúpfaðir minn á þess um árum og Hermann sonur hans var helsti skákfélagi minn. Við gátum verið dögum saman að leiða eina skák til lykta. Svo var ég ungur sendur í sveit á Strandir norður, og þá var oft gripið í tafl þegar þokan og súldin lágu yfir. Mér fannst þetta snemma heillandi leikur, og hreifst af hinum endalausu möguleikum.“
Hrafn var einn glaðbeittra fastagesta á Grandrokk við Klapparstíg um árabil undir lok síðustu aldar, en þangað á skákfélagið Hrókurinn rætur sínar að rekja; „Þetta var tvímælalaust skemmtilegasta knæpa bæjarins, sótt af bóhemum, bófum, ráðherrum og rónum, skákmönnum og skemmtikröftum. Og þarna stofnuðum við skákfélagið í bríarí eitt föstudagskvöldið og ákvaðum að senda lið til keppni á Íslandsmóti skákfélaga. Við settum okkur það markmið að byrja í 4. deild og komast á minnsta mögulega tíma upp í 1. deild og verða Íslandsmeistarar. Þetta var ævintýralegt ferðalag, úr myrkviðum neðstu deildar en við náðum takmarki okkar og urðum Íslandsmeistarar.“
Eftir að hafa unnið titilinn þrjú ár í röð ákváðu félagarnir að hætta sem keppnisfélag og einbeita sér að því að útbreiða fagnaðarerindið undir kjörorðum skákhreyfingarinnar: „Við erum ein fjölskylda.“
Hrókurinn heimsótti síðan hvert einasta sveitarfélag á Íslandi og alla grunnskólana.
„Við gáfum fimm árgöngum 8 ára barna frábæra skákbók, héldum fjölda alþjóðlegra skákmóta og efndum til fleiri viðburða en tölu verður á komið. Ég var kosinn forseti félagsins á stofnfundinum forðum og hef gegnt því embætti síðan. Ég gæti fyllt heilt tímarit með nöfnum þeirra sem hafa lagt málstaðnum lið gegnum árin, en nánsti samstarfsmaður minn og vinur frá upphafi er Róbert Lagerman, varaforseti Hróksins.“
 
BARNASPÍTALI HRINGSINS
Það var sumarið 2003 þegar þeir félagarnir heimsóttu Barnaspítala Hringsins fyrst og ætluðu upphaflega einungis að gefa taflsett.
„Heimsóknin var bara svo skemmtileg og hafði svo mikil áhrif á okkur að síðan höfum við Róbert komið þangað flesta fimmtudaga. Þetta er það verkefni sem okkur þykir hvað vænst um. Þarna höfum við kynnst mörgum ungum hetjum og áreiðanlega lært meira sjálfir en við höfum miðlað.“
 
GRÆNLAND
„Eins og svo margt skemmtilegt var það hreinasta tilviljun að við fórum til Grænlands. Eftir að hafa heimsótt öll sveitarfélög á Íslandi var ég að hugsa um hvað ég vissi um skák á Grænlandi, okkar næsta nágrannalandi. Við komumst að því að skák var þar næstum óþekkt og ekkert skipulagt skáklíf.“ 
Félagarnir ákváðu að bæta úr því og héldu fyrsta alþjóðlega skákmót í sögu Grænlands sumarið 2003.
„Við kolféllum auðvitað fyrir þessu dásamlega landi og fólkinu sem þar býr, og þá varð ekki aftur snúið. Nú hefur Hrókurinn skipulagt um 50 heimsóknir, gefið þúsundir taflsetta, og stuðlað að stofnun taflfélaga og Skáksambands Grænlands. Starf okkar snýst alls ekki eingöngu um skákina, heldur að efla tengsl og styrkja vináttubönd milli landanna í norðri. Við erum heppnasta þjóð í heimi með nágranna og getum margt af Grænlendingum lært, á sama hátt og við höfum sitthvað fram að færa.“
 
FATASÖFNUN OG FLEIRA FYRIR BÖRNIN Á GRÆNLANDI
Hrafn, Róbert og fleiri Hróksmenn eru virkir í starfi Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, sem árlega býður 11 ára börnum frá Austur‐Grænlandi til Íslands að læra sund og kynnast íslensku samfélagi. Í gegnum það verkefni og hinar fjölmörgu heimsóknir til austurstrandarinnar hafa þeir eignast afar marga vini á öllum aldri.
„Við fengum fyrir tveimur árum beiðni um að útvega föt fyrir börn í einu af þorpunum á Austur‐Grænlandi, en þar eru lífskjör ólíkt verri en flestir Íslendinga eiga að venjast. Við ætl uðum að senda nokkra kassa, en verkefnið óx heldur betur. Við fengum börn í 10 grunn skólum útum allt til að safna, sömu leiðis lögðu fyrirtæki okkur lið og aragrúi einstaklinga, auk prjónahópa
Rauða krossins og Gerðubergs.  Við höfum nú sent mikið magn af vönduðum og góðum fatnaði til Grænlands og ætlum að halda því áfram með þetta mikilvæga og gefandi verkefni.“
 
STAÐA GRÆNLENSKRA BARNA
„Grænlendingar, eins og aðrar þjóðir, glíma við margvísleg félagsleg vandamál sem snúa að börnum, allt frá skelfilega hárri sjálfsmorðstíðni síðustu áratugi til mikils brottfalls úr skólum. Þá er nöturleg staðreynd að mjög mörg börn geta af ýmsum ástæðum ekki dvalið hjá fjöl skyldum sínum, og eru um lengri eða skemmri tíma hjá fóstur fjölskyldum eða á sérstökum heimilum. Margir eru að vinna frábært og ómetanlegt starf til að bæta ástandið, en það tekur tíma. Og það er mikilvægt að við, vinir og velunnarar Grænlands, nálgumst þessi mál af varfærni og virðingu. Við eigum ekkert með að segja þeim, eða öðrum, fyrir verkum en við höfum af margvíslegri reynslu að miðla, og þar geta samtök á borð við Barnaheill gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki.“
 
FYRIRMYNDIN
Aðspurður að því hver sé hans helsta fyrirmynd svarar Hrafn um hæl: „Mamma er helsta fyrirmynd mín í lífinu. Þegar ég var að alast upp var hún formaður í Félagi einstæðra foreldra. Hún og félagar hennar
lyftu Grettistaki í þeim málaflokki. Ég stóð varla úr hnefa þegar ég var byrjaður að afgreiða á flóamörkuðum og ganga í hús til að selja happdrættismiða, jólakort og merki. Ég velti stundum fyrir mér hvernig mamma fór að þessu ‐‐ hún var einstæð fjögurra barna móðir og í rúmlega fullu starfi sem blaðamaður, en samt virtist hún hafa endalausan tíma til að vinna í þágu málstaðarins.“
Seinna fékk Hrafn að fylgjast með þegar móðir hans tók að sér upp á eigin spýtur að opna heilan menningarheim fyrir Íslendingum.Þetta gerði hún með skrifum um Arabaheiminn og Mið‐Austurlönd, með stofnun Fatimusjóðsins og margvíslegu hjálparstarfi. „Mamma er kraftaverkakona sem lætur verkin tala.”
„Þegar ég var unglingur hugsaði ég mikið um hvernig hægt væri að bjarga heiminum, helst með einum fingursmelli. Með tímanum hefur mér lærst að það er dálítið tímafrekara, og að heiminum verður víst ekki bjargað í eitt skipti fyrir öll. Það skiptir mestu máli að byrja og halda svo áfram, samanber hið fornkveðna: Sá sem bjargar einu barni, bjargar öllum heiminum.”
 
SKYLDAN OG DRAUMURINN
Heilagasta skylda okkar sem samfélags að mati Hrafns er við börnin í þessum heimi. Öll börn. Börnin í Hringnum og börnin í Sýrlandi, börnin á Grænlandi og börnin í Afríku. „Ekkert 

Hrafn teflir

 

þessara barna bað um að fæðast í heiminn og skylda okkar er einfaldlega sú að veita þeim öryggi, lífsgæði og gleði. Og sá sem skapar gleðistundir fyrir aðra fær þær margfalt til baka.”
„Við Hróksmenn eigum marga drauma. Og til þess að draumar rætist verður maður fyrst að láta sig dreyma, svo vitnað sé í orðskvið frumbyggja Ameríku. Við eigum okkur draum um að heimsækja sýrlenskrar flóttamannabúðir í Jórdaníu og við eigum okkur líka þann draum að komast til nyrsta þorps á Grænlandi, óravegu frá næsta byggða bóli. Okkur langar að færa börnunum á þessum stöðum gleði og afþreyingu, skák og skemmtun. Og ég veit að þetta mun takast, með góðra manna hjálp, því saman erum við sterkari.”
 
Viðtal: Sigríður Guðlaugsdóttir