Hringurinn hlýtur viðurkenningu Barnaheilla

Viðurkenning Barnaheilla 2003Viðurkenningu Barnaheilla fyrir sérstakt framlag í þágu barna og réttinda þeirra hlýtur að þessu sinni kvenfélagið Hringurinn. Viðurkenningin var veitt í morgun,  fimmtudaginn 20. nóvember, í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu.

vidurkenning2003Guðbjörg Björnsdóttir, formaður Barnaheilla, og Björk Sigurjónsdóttir, 9 ára nemi við Fossvogsskóla, afhentu Áslaugu B. Viggósdóttur, formanni Hringsins, viðurkenninguna við hátíðlega athöfn. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flutti ávarp og Þórdís Ylfa Viðarsdóttir, 9 ára nemi við Allegro suzuki-tónlistarskólann, lék á fiðlu.


Stjórn Barnaheilla ákvað árið 2002 að veita slíka viðurkenningu árlega og valdi til þess afmælisdag Barnasáttmálans, 20. nóvember. Á þeim degi árið 1989 var sáttmálinn samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Barnaheill, Save the Children á Íslandi, eru alþjóðleg hjálpar- og barnaréttarsamtök sem hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Á síðastliðnu ári hlaut Barnahús viðurkenningu Barnaheilla.