Hundruð þúsunda barna flýja heimili sín á ný eftir að átök stigmagnast í Sýrlandi

Faris* 4 ára
Faris* 4 ára

Barnaheill – Save the Children hafa staðfest að allt að 200.000 börn hafi neyðst til að yfirgefa heimili sín í Norður-Sýrlandi síðustu tvo mánuði, eftir vaxandi átök á svæðinu. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum, þá hafa 34 börn, 14 stúlkur og 20 drengir, látist í átökunum í Sýrlandi síðan 15. janúar 2020.Hayat* 10 ára

Starfsmenn Save the Children í borginni Idlib, sem er staðsett í Norð-vestur hluta landsins, 59 km frá Aleppo, segja að líklegt sé að fjöldi þeirra sem er að flýja af svæðinu sé mun meiri en opinberar tölur segja til um. Flestar fjölskyldurnar sem eru á flótta eru ekki að flýja heimili sín í fyrsta sinn, en í hvert sinn sem fjölskyldurnar flýja er áhættan meiri.

Sonia Khush verkefnastjóri Save the Children í Sýrlandi segir ástandið í Idlib og Aleppo vera mjög alvarlegt. ,,Fjöldi fjölskyldna sem flýja Idlib og Aleppo er gríðarlegur. Bílalestin teygir sig marga kílómetra út úr borginni þar sem fjölskyldur hafa þurft að skilja allt eftir. Þær halda í vonina að geta flúið á öruggan stað. Samstarfsaðilar okkar segja að þessi fjöldi flóttafólks frá borgunum sé það mesta sem þeir hafa séð".

Hin 10 ára gamla Hayat* er ein af þeim börnum sem hefur þurft að flýja heimili sitt en hún bjó í borginni Ma'arat Nu'man, sem er 33 km frá Idilib. Fjölskylda hennar flúði til Idilib og býr nú í tjaldi sem komið var upp á leiksvæði í borginni sem ætlað er sem tímabundið skjól fyrir flóttamenn. ,,Þeir voru að sprengja hús, við urðum hrædd. Þeir sprengdu markaði. Við flúðum og fólk hefur opnað heimili sín fyrir okkur."

Karim*, nágranni Hayat frá Ma'rat Nu'man, flúði einnig heimili sitt með fjölskyldunni sinni ,,Við þurftum að skilja allt sem við áttum eftir. Fötin sem við fórum í er það eina sem við eigum. Ástandið hér í búðunum er slæmt. Það er mjög kalt og það rignir mikið og það flæðir inn í tjöldin. Börnunum er kalt og það er engin upphitun.”

Barnaheill – Save the Children og samstarfsaðilar þeirra í Idlib aðstoða við brottflutning fólks frá átakasvæðum með þeim takmörkuðu ráðum sem eru í boði. Samtökin aðstoða börn og fjölskyldur þeirra sem eru á flótta með því að veita læknisaðstoð, mat, menntun og barnaverndarþjónustu. Samtökin hvetja alla sem eiga þátt í átökunum að hætta stríði gegn börnum og virða alþjóðleg mannréttindalög sem ætlað er að vernda börn á tímum átaka. 

*Nöfnum hefur verið breytt