Hungursneyð dregur tugi þúsunda barna til dauða vegna Kórónuveirufaraldursins

Óttast er að 67 þúsund börn í löndum Afríku sunnan Sahara svelti í hel fyrir árslok, samkvæmt nýrri greiningu Barnaheilla – Save the Children. Kórónuveiruheimsfaraldurinn hefur leitt til aukins matarskorts en ástandið var bágborið fyrir. Samkvæmt skrýslu sem birtist í breska læknaritinu The Lancet er talin hætta á því að 426 börn kunni að deyja úr hungri dag hvern ef ekki verður gripið til aðgerða.

Margvíslegar hremmingar hafa gengið yfir þennan heimshluta á árinu sem valdið hafa matarskorti, meðal annars ægileg flóð og engisprettufaraldrar, ásamt hækkun á verði nauðsynja. COVID-19 bætti gráu ofan á svart með því að ræna fólk lifibrauðinu og hafa lamandi áhrif á efnahag ríkja, auk þess sem grunnþjónusta eins og heilbrigðisþjónusta stenst ekki álagið sem fylgir áhrifum COVID-19. Fyrr á árinu var áætlað að fátækt í sunnanverði Afríku myndi aukast um 23%. Nýjustu spár fram til ársins 2030 sýna að um 433 milljónir íbúa í Afríku muni búa við mikla hungursneyð.

Ubah er sex barna móðir sem býr í Sómalíu og segir erfitt að horfa upp á börnin sín fara svöng í rúmið.

„Lífið var erfitt fyrir mig og fjölskyldu mína en ég vann mikið og við komumst af. Með kórónuveirunni hafa aðstæðurnar versnað. Nú gríp ég í störf endrum og eins. Áður en við fengum stuðning borðuðum við aðeins eina máltíð á dag, morgunverð. Ég hef horft upp á börnin mína fara svöng í svefn. Það er versta tilfinning móður þegar hún getur ekki gefið börnunum sínum að borða.“


Ian Vale, svæðisstjóri Barnaheilla – Save the Children í Austur- og Suður Afríku, segir áhrif kórónuveirunnar á hungur vera áhyggjuefni.

,,Kórónuveirufaraldurinn er að hafa áhrif á uppskeru, fólk er að missa vinnuna og matur er orðinn mjög dýr – ef hann er þá til. Margir foreldrar eru í vandræðum með að útvega mat fyrir fjölskyldur sínar. Við erum að fá fleiri vannærð börn en áður á heilsugæslustöðvar Barnaheilla. Uppskerubresturinn getur dregið tugi þúsunda barna til dauða ef ekki verður gripið til aðgerða með mannúðaraðstoð strax. Við getum ekki beðið.”

Barnaheill – Save the Children hafa brugðist við fæðuskortinum með því að dreifa mat eða reiðufé til fátækra fjölskyldna, tryggja þeim aðgang að hreinu vatn og styðja við þjónustu á sviði næringar- og heilbrigðismála í samræmi við sóttvarnartilmæli á tímum kórónuveiru. Barnaheill - Save the Children kalla eftir auknum framlögum í þágu fátækustu barnanna í heiminum.

 

Flóð hafa haft mikil áhrif á uppskeru í Afríku